143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:40]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2013 og umræða er búin að standa þennan þingdag. Hér er hægt að fara ítarlega yfir ýmislegt sem getur að líta í nefndarálitum og breytingartillögum. Ég ætla að byrja aðeins almennt að ræða um vinnubrögð og annað slíkt sem lýtur að þessu máli og tengist reyndar má segja fjárlögum ríkisins almennt.

Bent er á að fjáraukalagafrumvarpið kemur óvenjuseint fram. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson gat þess í ræðu sinni að hann hefði látið þau sjónarmið koma fram að vinnan væri öll á hefðbundnu eða venjubundnu róli þó að þar með væri ekki endilega sagt að það væri allt til fyrirmyndar. Ég get tekið undir með honum hvað það varðar. Það hefur auðvitað ekkert verið allt til fyrirmyndar í vinnubrögðum við lagasetningu og fjárlagagerð eins og þau hafa verið undanfarin ár. En ég held að það megi fullyrða, og ég átti nú á síðasta kjörtímabili sæti í fjárlaganefnd í nokkrum lotum, m.a. með hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, að það hafi komið fram, m.a. frá Ríkisendurskoðun, að vinnan við fjárlagagerð hefur batnað mjög mikið á umliðnum árum. Framúrkeyrslur hafa minnkað frá því sem var kannski fyrir allmörgum árum og það er að sjálfsögðu jákvæð þróun og ástæða til þess að bæta vinnubrögðin sífellt.

Ég hafði til að mynda miklar áhyggjur af því í sumar þegar gerðar voru breytingar á þingskapalögum í því augnamiði að ríkisstjórnin gæti komið síðar inn með fjárlög og tengd frumvörp en þingsköpin gerðu ráð fyrir. Því var frestað um þrjár vikur en eins og menn muna var sú breyting gerð á þingsköpunum fyrir nokkru síðan að þingsetningu var flýtt að hausti frá 1. október til annars þriðjudags í september. Fyrir því voru veigamikil rök sem lutu að því að fjárlög og tengd frumvörp kæmu þá fyrr fram og nefndir Alþingis fengju rýmri tíma en áður til að fara yfir fjárlögin.

Ég varaði mjög sterklega við því strax í sumar að afleiðingarnar af frestuninni yrðu þær að við mundum lenda í meiri erfiðleikum með fjárlagavinnuna á þessu hausti og það er að koma á daginn. Og eins og hér hefur verið bent á í þessari umræðu er það ekki bara að sú seinkun hafi orðið, þriggja vikna seinkunin í upphafi þings heldur var gert ráð fyrir því að 2. umr. um fjárlagafrumvarpið færi fram fyrir viku síðan og henni hefur líka verið frestað. Fyrst skildist mér að hún ætti að fara fram í dag en síðan er búið að fresta henni aftur eitthvað fram eftir vikunni. Þessi vinna hefur því dregist og þær fréttir sem berast núna úr stjórnarherbúðunum eiginlega bara oft á dag um það sem er að gerast — ég veit ekki hvort það eru samningar á milli stjórnarflokkanna eða innbyrðis milli ríkisstjórnarinnar og forustu fjárlaganefndar eða hvað það er eiginlega sem gengur á, enda má það einu gilda. Það blasir við að á stjórnarheimilinu eiga menn í erfiðleikum með að koma sér saman um hvaða tillögur eigi að hljóta náð fyrir augum fjárlaganefndar þegar upp er staðið og koma hér inn í þingsal. Þetta eru auðvitað mjög slæleg vinnubrögð, herra forseti.

Af því að ég hef verið að vitna í hv. þm. Höskuld Þórhallsson sem átti sæti í fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili þá man ég eftir því líka í vinnu þáverandi stjórnarflokkanna að undirbúningi fjárlaga og vinnu við þau mál að settur var á laggirnar sérstakur hagræðingarhópur á vegum þeirrar ríkisstjórnar sem skipaður var þingmönnum úr stjórnarflokkunum. Ég átti m.a. sæti í slíkum hagræðingarhópi. Það var nú ekki gert með bréfi úr forsætisráðuneytinu og því síður að við fulltrúar í hagræðingarhópnum hefðum verið gerðir að aðstoðarmönnum ráðherra eins og nú tíðkast. En ég man eftir því að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson átaldi þessi vinnubrögð og taldi að óformlegur hópur þingmanna hefði ekkert umboð til að fjalla um þau mál sem hann var að fjalla um. Þess vegna hefði verið fróðlegt að heyra viðhorf hv. þingmanns núna til þess vinnulags sem núverandi hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkar hafa á þessum málum, en látum það liggja milli hluta.

Ég ætla að víkja þá aðeins að efnisatriðum frumvarpsins sem hér er til umfjöllunar. Þá eru undir nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar og breytingartillögur frá meiri hlutanum og sömuleiðis sameiginlegt nefndarálit frá fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna í fjárlaganefnd og breytingartillögur frá þeim.

Ég get tekið undir það sem hér hefur verið sagt af ýmsum fulltrúum úr stjórnarandstöðunni að það er sumt gott í þeim breytingartillögum sem koma fram frá meiri hluta fjárlaganefndar. Ég vil leyfa mér að draga sérstaklega fram það sem ég hafði verulegar áhyggjur af þegar fjáraukalagafrumvarpið kom fram og það eru framlög til rannsókna- og vísindastarfsemi í landinu. Í fjáraukalagafrumvarpinu var gert ráð fyrir því á yfirstandandi ári að draga úr framlögum til Rannsóknasjóðs um 220 millj. kr., um 200 millj. kr. til markáætlunar á sviði vísinda og tækni og um 150 millj. kr. í Tækniþróunarsjóð.

Það verður að segjast alveg eins og er, herra forseti, að fjáraukalögum er ætlað að mæta ófyrirséðum útgjöldum eða nýjum útgjöldum sem koma til vegna laga en ekki til að fara í ný verkefni sem eru fyrirsjáanleg, mæta útgjöldum sem eru fyrirsjáanleg og hefðu átt að takast inn í fjárlög upphaflega. Hafi það ekki verið gert var bersýnilega ekki ætlun löggjafans og fjárveitingavaldsins að taka slíka þætti inn. Þetta er satt að segja ljóður á ráði meiri hlutans að fara með fjáraukann með þessum hætti og framlögin til vísinda- og rannsóknastarfseminnar í landinu er dæmi um slíkt. Að ætla sér núna, þegar hálfur mánuður er eftir af árinu, að taka á milli 500 og 600 milljónir út úr þeim þremur rannsóknarsjóðum eða viðfangsefnum sem ég nefndi er náttúrlega bara galið, það er algjörlega galið. Og maður skilur eiginlega ekki hvernig mönnum datt þetta í hug.

Það segir reyndar í skýringum með breytingartillögu meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Að betur athuguðu máli er talið að vinna að umsóknum um styrki, mat og eigið fé þeirra til væntanlegrar úthlutunar sé það langt komin að ekki verði heppilegt“ — ekki verði heppilegt — „að lækka framlagið á þessu stigi þrátt fyrir að áform um tekjuöflun til að standa undir því gangi ekki eftir.“

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta lýsa ótrúlegri vanþekkingu og skilningsleysi á eðli þeirrar starfsemi sem hér heyrir undir. Hér er um að ræða mjög mikla vinnu sem okkar færasta vísinda- og rannsóknafólk leggur á sig til að búa til umsóknir, til að gera samninga, oft á tíðum til nokkurra ára, og hér var lagt upp með að taka á milli 500 og 600 millj. kr. út úr þessu. Að vísu er lagt til í breytingartillögu meiri hlutans að koma inn með rúmlega 400 millj. kr. inn í það aftur en eftir stendur markáætlun sem við höfum ekki fengið tilhlýðilegar skýringar á hvernig verkefnastaða er þar. En þetta sýnir ákveðið viðhorf til þeirrar starfsemi sem hér á í hlut og að hún skipti ekki ýkja miklu máli. Ég harma það mjög.

Ég vil líka nefna sérstaklega einn lið. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson vék að því í andsvörum sínum við ræðu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar að það væru nú einhverjir skúffupeningar sem verið væri að búa hér til í ráðuneytum, m.a. mennta- og menningarmálaráðuneyti. Þar eru mjög sérkennilegir hlutir á ferðinni, svo ekki sé meira sagt. Lagt er til að um 300 millj. kr. verði sameinaðar á einn lið hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu vegna áforma um styttingu náms til stúdentsprófs og starfsnámsprófa um eitt ár.

Í áliti meiri hlutans segir, með leyfi forseta:

„Lagt er til að ónýttar fjárheimildir, m.a. vegna verkefnisins Nám er vinnandi vegur falli niður en þess í stað er gerð tillaga um að ráðstafa samsvarandi fjárhæðum til undirbúnings endurskipulagningar, svo sem vegna styttingar náms til stúdentsprófs. Ekki er ætlunin að nýta þær heimildir fyrr en á næsta ári. Meiri hlutinn átelur þessi vinnubrögð og bendir á að réttara sé að ónýttar heimildir falli niður og ráðherrar geri þá nýjar tillögur um útgjöld í samræmi við breytta forgangsröðun þannig að tillögurnar rúmist innan fjárhagsramma hvers árs. Engu að síður gerir meiri hlutinn ekki breytingar á fyrirkomulaginu að þessu sinni en beinir því til ráðuneyta að taka upp ný vinnubrögð.“

Þetta hlýtur að vekja upp spurningar um það hvort búið sé að ákveða að á árinu 2014 verði hafist handa við að stytta nám til stúdentsprófs um eitt ár, því að það er það sem hér er lagt upp með. Lagt er upp með að færa fjármuni inn á þennan lið í fjáraukalögum fyrir árið 2013, ekki vegna óvæntra útgjalda sem komu til á því ári heldur verkefna sem er fyrirhugað að fara í á árinu 2014, sem er stytting náms til stúdentsprófs um eitt ár. En bíðið nú við, það hefur bara ekkert verið til umræðu í þinginu. Hefur hæstv. menntamálaráðherra flutt eitthvert frumvarp þar um? Hefur einhver umræða farið fram um það við skólana í landinu? Mér er ekki kunnugt um það. Þetta eru vinnubrögð, herra forseti, sem hljóta að fá fullkomna falleinkunn að því er varðar undirbúning og vinnulag. Ég hlýt því að gera verulegar athugasemdir við það að þessi leið sé hér farin.

Ástæðan fyrir þessu virðist vera sú að ef sú fjárhæð sem hér er verið að millifæra yrði felld niður á árinu 2013 og sett inn á árið 2014, eins og ætti að gera eðli málsins samkvæmt, lækkar heildarjöfnuðurinn á árinu 2014, sem er ekki mikill, úr um 600 millj. kr. niður í 300 millj. kr. Hér virðist vera um að ræða einhverjar barbabrellur til þess að fegra myndina í fjárlögum fyrir árið 2014. Ég tel, virðulegur forseti, að það þurfi að fara betur yfir þetta og fá skýringar. Eiginlega þyrfti að kalla eftir því að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra gæfi skýringar á því sem þarna er á ferðinni og hvernig hann hyggst standa að þessu máli miðað við það sem segir í nefndaráliti meiri hlutans.

Á þskj. 327 er að finna breytingartillögu við frumvarp til fjáraukalaga frá minni hluta fjárlaganefndar, hv. þingmönnum Oddnýju G. Harðardóttur, Bjarkeyju Gunnarsdóttur og Brynhildi Pétursdóttur. Tillagan er í fjórum liðum og ég ætla að nefna þá örstutt.

Í fyrsta lagi er gerð tillaga um framlag til fjarskiptasjóðs upp á 195 millj. kr. á yfirstandandi ári, en það helgast af því að ekki er gert ráð fyrir að markaðar tekjur upp á 195 millj. kr. vegna hins svokallaða 4G-útboðs gangi til sjóðsins. Það hlýtur að hafa áhrif á áform fjarskiptasjóðs um aðgerðir til að bæta netsamband úti um allt land. Það hefur komið fram og er greint frá því í nefndaráliti minni hlutans að mörg sveitarfélög hafi einmitt lýst áhyggjum sínum af skorti á netsambandi og slæmum áhrifum þess á búsetuskilyrði. Þá dettur mér í hug að velta því upp hvort gerð hafi verið einhver sérstök úttekt á áhrifum þessa frumvarps á byggðamál.

Ég man eftir því á síðasta kjörtímabili að þá var óskað eftir því í fjárlaganefnd, mig minnir að það hafi verið hv. þm. Höskuldur Þórhallsson og kannski hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sem gerðu kröfu um að fyrir lægi eins konar mat á byggðaáhrifum einstakra ákvarðana í fjárlögum. Hér er dæmi um mál sem bersýnilega hefur neikvæð áhrif á búsetuskilyrði um landið og væri eðlilegt að menn hefðu greint hvaða áhrif það kann að hafa. Sérstaklega hlýtur maður að velta því fyrir sér af hverju þessir sömu þingmenn og áður hafa sérstaklega talað um þetta atriði gera það ekki nú. En minni hlutinn gerir tillögu um að úr þessu sé bætt með framlagi til fjarskiptasjóðs upp á 195 millj. kr.

Í öðru lagi er gerð tillaga um að hækka framlag til Landspítalans frá því sem gert er ráð fyrir í fjáraukalögum um 125 millj. kr. Það er vegna sérstakra ráðstafana sem þurfti að grípa til í upphafi þessa árs og er gerð grein fyrir í nefndaráliti minni hlutans. Þar er rakið að starfsemi Landspítalans hafi farið fram úr því sem tíðkaðist í meðalári og er rakið til óvenjuskæðra faraldra sem gengu yfir landið, inflúensu, nórósýkingar og RSV-sýkingar, og gert hafi verið ráð fyrir því að Landspítalinn þyrfti ekki að skera niður vegna þessara atburða heldur yrði tekið á því í fjáraukalögum fyrir árið 2013 upp á um 125 millj. kr. (Gripið fram í: Nei.) Það var reyndar gerð samþykkt um þetta í fyrrverandi ríkisstjórn en núverandi ríkisstjórn virðist svo meinilla við allar ákvarðanir sem fyrri ríkisstjórn tók að hún keppist við að vinda ofan af þeim eins og hún frekast getur. Þetta er að sjálfsögðu eðlileg tillaga og mikilvæg fyrir Landspítalann og vonandi fær hún náð fyrir augum þingmanna stjórnarflokkanna.

Með sama hætti er gerð tillaga um 140 millj. kr. framlag til heilbrigðisstofnana almennt. Þar er því lýst að það sé mjög mikið áhyggjuefni ef heilbrigðisstofnanirnar fara inn í nýtt fjárlagaár með mikinn uppsafnaðan halla og óvinnandi rekstrarstöðu, sem er hjá mörgum heilbrigðisstofnunum og er gerð grein fyrir. Það er að áliti minni hlutans nauðsynlegt að mæta því með 140 millj. kr. framlagi sem tillaga er einnig gerð um.

Síðan er gerð tillaga um 240 millj. kr. í Atvinnuleysistryggingasjóð. Það virðist einfaldlega vera svo að spá Hagstofunnar um fjölda atvinnulausra gangi ekki fyllilega eftir og atvinnuleysi verði ívið meira en við var búist. Það leiðir til aukinna útgjalda úr Atvinnuleysistryggingasjóði og til að mæta því og forðast framúrkeyrslu hjá sjóðnum hefur verið gerð tillaga um að hætt verði við og fallið frá útgreiðslu desemberbóta til atvinnulausra á árinu 2013 upp á 240 millj. kr. Og það hlýtur að verða að segjast eins og er, herra forseti, að það er algjörlega ótækt að atvinnuleitendur verði af þeirri uppbót sem launafólk almennt í landinu fær. Síst eru þeir sem hér falla undir ofhaldnir af því sem þeir bera úr býtum. Það er sorglegt að ekki skuli vera gert ráð fyrir því að desemberuppbót verði greidd til atvinnuleitenda.

Ég hafði skilið hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra þannig í umræðum að hún mundi vilja beita sér fyrir því að atvinnuleitendur fengju desemberuppbót greidda en miðað við þær tillögur sem hér liggja fyrir frá meiri hluta fjárlaganefndar er ekki gert ráð fyrir því, en minni hlutinn gerir tillögu um það og vonandi fær hún stuðning.

Það væri hægt að tala ýmislegt fleira um efni fjáraukalagafrumvarpsins, það væri hægt að fara yfir tekjuhliðina og hvernig núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa sjálfir grafið undan tekjugrunni fjárlagaársins 2013 með ákvörðunum eins og um veiðigjaldið og virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og grafið þannig í raun og veru undan m.a. margháttuðum verkefnum í fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar, sem núverandi ríkisstjórn bölsótast út í í tíma og ótíma. Sú áætlun var þó einmitt hugsuð til þess að skapa hagvöxt og atvinnu og glæða atvinnulífið, en núverandi ríkisstjórn virðist ekki hafa áhuga á að gera það með þeim hætti sem fráfarandi ríkisstjórn lagði til. En það verður að bíða betri tíma, virðulegur forseti, þar sem tími minn er á þrotum, en þetta eru þau sjónarmið sem ég vildi koma fram með í þessari umræðu.