143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil grípa boltann þar sem hv. þingmaður sleppti honum og hvetja þingheim til að samþykkja tillögu okkar í minni hluta fjárlaganefndar sem felur í sér tilfallandi kostnað desemberuppbótar til handa atvinnulausum.

Það sem mig langaði aðeins að ræða í dag er auðvitað það sem gengið hefur á hérna undanfarið. Það varðar í fyrsta lagi undanhald ríkisstjórnarinnar, það dregur smátt og smátt úr og sem betur fer eru vondar ákvarðanir að ganga til baka að einhverju leyti en þó ekki öllu. Þrátt fyrir það er verið að bera rangar sakir upp á þingmenn og maður veltir því fyrir sér hvað hæstv. forseti hyggst gera í því þegar hæstv. forsætisráðherra ber upp á fólk að það sé að segja ósatt. Í rauninni er ekki boðlegt að sitja undir því. Þingmenn hafa ýmist fengið ákúrur fyrir að hafa gert það fyrir fram eða þá er vitnað í undirrituð plögg sem hafa birst á fleiri en einum stað.

Í gær kom fram í sjónvarpsfréttum að hæstv. ríkisstjórn væri að fjalla um breytingar á breytingartillögum sem eru til umræðu í fjárlaganefnd. Mér fannst sérkennilegt að þegar ég leit inn á vef ráðuneytisins í morgun hafði ekki verið fært til bókar að þau mál hefðu verið rædd þar þrátt fyrir að ráðherra kæmi í sjónvarpið og segðist hafa verið að ræða málin. Ég hefði haldið að allir ættu að minnsta kosti að fá að vita að málin væru til umfjöllunar þar.

Af því að hæstv. fjármálaráðherra hefur talað um að við vinstri græn viljum seilast í vasa venjulegs fólks — já, við gerum það frekar en að seilast í vasa þeirra sem ekkert eiga, samanber þróunaraðstoðina sem af svo miklu lítillæti er verið að reyna að draga eitthvað örlítið til baka.