143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á viðtali við framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar sem var í Ríkisútvarpinu í morgun þar sem hann fjallaði um þróunarsamvinnuna. Að sjálfsögðu er tilefnið áform í fjárlagafrumvarpi hæstv. núverandi ríkisstjórnar um niðurskurð til þróunarsamvinnu, bæði tvíhliða þróunarsamvinnu og fjölþjóðlegrar þróunarsamvinnu.

Framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar vekur athygli á því að sá niðurskurður sem er áformaður muni bitna sérstaklega á nýjasta verkefni stofnunarinnar sem er jarðhitaverkefni þar sem íslensk þekking er nýtt í þágu þróunarríkja. Hann leggur áherslu á það í máli sínu að þurfi hann að velja mannslíf annars vegar og íslenska sérþekkingu hins vegar eigi hann engan annan kost en að velja mannslíf. Þessu mati er ég að sjálfsögðu algerlega sammála og ég geri ráð fyrir að flestir deili því.

Í viðtalinu lætur hann þess getið að slík verkefni, sérstaklega þau sem bjarga mannslífum, séu í raun og veru betri notkun á íslensku skattfé en önnur dæmi eru um. Þessu finnst mér mikilvægt að halda til haga og vekja þá jafnframt athygli á því að svona geta afleiðingarnar orðið af mörgum vanhugsuðum eða illa hugsuðum ráðstöfunum eins og birtast í fjárlagafrumvarpinu hvað þetta atriði varðar.

Það er að sjálfsögðu jákvætt ef menn sjá eitthvað að sér í þessu efni, en mér finnst mikilvægt að við höfum í huga mikilvægi þróunarsamvinnunnar og hvað við getum lagt af mörkum vegna þess að þrátt fyrir allt eru Íslendingar rík þjóð sem á að sjálfsögðu að láta sig varða heiminn allan.