143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

dagskrá fundarins og afgreiðsla mála fyrir jól.

[15:38]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir hvatningu til forseta um að hugleiða aðeins endurröðun á dagskránni, ekki bara í ljósi þess að þau mál sem nefnd hafa verið eru mikilvæg og varða brýna hagsmuni heimila heldur líka vegna þess að hér komu í ljós í gærkvöldi við umræðu um fjáraukalög miklir og alvarlegir gallar á málatilbúnaðinum. Vandinn er bara sá að það voru engir stjórnarsinnar til andsvara í gærkvöldi og vörðu hvorki né útskýrðu þær tillögur sem hér eru lagðar fram.

Það liggur fyrir meirihlutaálit frá fjárlaganefnd þar sem hún átelur harðlega framgöngu menntamálaráðherra í því að raka saman fjárlagaheimildum á yfirstandandi ári til að ráðast í gæluverkefni á nýju ári. Það verður ekki ráðið af áliti meiri hlutans annað en að frumvarpið sjálft svo búið, sem meiri hlutinn leggur þó fram, brjóti í bága við fjárreiðulög. Það er brýnt að kalla saman fund í fjárlaganefnd og kalla á fund fulltrúa Ríkisendurskoðunar til að fá á því álit hvort þessi (Forseti hringir.) fordæmalausa tilhögun, að flytja fjárheimildir þessa árs yfir á næsta ár í alls óskyld verkefni, (Forseti hringir.) sérhugmyndir menntamálaráðherra sem hann hefur ekki kynnt þinginu, standist.