143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

lengd þingfundar.

[15:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við áttum hér umræður fram til miðnættis í gær. Það var ekki nema sjálfsagt að greiða fyrir þingstörfum og þeim mikla vanda sem skapast hefur vegna þess hversu seint stjórnarfrumvörp eru komin fram og standa vaktina til miðnættis. Reyndin varð þó einfaldlega sú að stjórnarmeirihlutinn, sem við vorum að reyna að hjálpa úr vanda sínum með því að halda áfram umræðum fram að miðnætti, lét ekki sjá sig við umræðuna og tók engan þátt í henni.

Fyrst stjórnarmeirihlutinn treystir sér ekki sjálfur til að mæta til þings á kvöldin og taka þátt í umræðum getum við auðvitað ekki lengur stutt það að hér séu kvöldfundir — nema þá að það komi afdráttarlaust fram af hálfu þingflokksformanna stjórnarflokkanna að þingmenn stjórnarflokkanna verði á þessum kvöldfundum og taki þátt í umræðunum.

Að öllu óbreyttu verðum við að hafna þessari beiðni virðulegs forseta fyrir okkar leyti. (Gripið fram í: Þetta var …)