143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

lengd þingfundar.

[15:48]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Okkur er nokkur vandi á höndum því að hér koma mál seint inn og þegar fyrst gefst tækifæri til að ræða þau er orðið áliðið þinghalds, komið fram í miðjan desember og þingdögum farið að fækka. Við ræðum þessi mál á kvöldfundi og erum rétt byrjuð að ræða þau efnislega þegar stjórnarliðar yfirgefa að stærstum hluta þingsalinn. Hér eru tveir, þrír fulltrúar stjórnarflokkanna í salnum (Gripið fram í.) og enginn svarar athugasemdum sem settar eru fram. Hér var enginn úr meiri hluta fjárlaganefndar sem svaraði vandaðri gagnrýni sem fram kom í gær og skýrði það hvernig í ósköpunum menn geta staðið að breytingartillögum sem þeir segja í hinu orðinu að brjóti gegn fjárreiðulögum.

Það er ekki hægt að eiga hér umræðu með þessum hætti. Hún var að sjálfsögðu góð og upplýsandi, ég fór í andsvar við hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur og við reyndum að komast til botns í málinu, (Forseti hringir.) en það hefði náttúrlega verið gott ef fulltrúar meiri hluta fjárlaganefndar hefðu séð sóma sinn í því að fylgja málinu úr hlaði og svara efnislegri gagnrýni. Til þess eru þingstörf.