143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

lengd þingfundar.

[16:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér er sagt, það hefur verið kallað eftir því að við bætum umræðuhefðina í stjórnmálunum. Við leggjum okkur mjög mörg fram um það eins og hefur komið fram í mörgum ræðum á undan minni. Hér voru í gær alvöru efnislegar umræður um fjáraukalög. Ég held að vandinn liggi í því að stjórnarliðar virðast vera búnir að ákveða að hlusta ekkert á það sem sagt er, þeir eru bara að keyra sitt prógramm algjörlega óháð öllum öðrum. Það er kannski það sem við stjórnarandstöðuþingmenn munum þurfa að búa við, en það breytir því ekki að þið munuð ekki slá okkur út af því spori að ætla að halda áfram málefnalegri umfjöllun um þau mál sem fyrir liggja. Ætli við verðum þá ekki bara að segja að okkur sé nokk sama um það hvort þið takið þátt í því með okkur eða ekki?

Það er samt ósanngjarnt gagnvart þeim sem kusu okkur hingað inn ef við förum í tvær blokkir sem ræðast ekki við. Það er fyrir neðan allar hellur, virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagðist ætla að vera hér í kvöld og þess vegna mun ég (Forseti hringir.) styðja það að hér verði kvöldfundur, en spyr að sama skapi hversu langur hann gæti mögulega orðið þar sem maður gæti þurft að gera ráðstafanir.