143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi bara í hreinskilni að ég hef ekki ákveðið endanlega hvort ég muni styðja það mál eða ekki. Mig langar rosalega til að styðja það en spurningin sem ég spyr mig er alltaf: Getum við og eigum við að fá það lánað? Ég veit það ekki. Ég þyrfti að ræða það við samflokksmenn mína og helst auðvitað fólkið sem ég ráðfæri mig helst við, sem er svokölluð grasrót Pírata.

Helst mundi ég vilja hafa þetta þannig að þessu væri stillt upp í reiknilíkan á netinu og maður gæti togað til sín litla „levera“ hér og þar og reiknað út hvernig væri best að gera þetta. Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki raunhæft endilega í raunveruleikanum en ég held að miklu fleiri mundu taka þátt í slíkum ákvarðanatökum ef það væri auðveldara og skýrara og kannski skemmtilegra sem er mikilvægt. Í tölvuleikjum er þetta voða lítið mál en þar er líka allt í litum og skemmtilegra. Ef þessu væri frekar þannig háttaði að fólk gæti nálgast fjárlögin og stillt liði eftir eigin höfði held ég að hægt væri að ná lýðræðislegri umræðu um fjárlögin. Þá þyrfti ég ekki að standa hér og útskýra hvort ég sé með eða móti þessari annars góðu hugmynd.