143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er ég ekki viss um að ég hafi náð því hvort þarna hafi leynst spurning eða ekki en ég ber mikla virðingu fyrir því að þessi mál eru mjög flókin og hafa lengi verið gerð á ákveðinn hátt og þá er mjög erfitt að breyta. Það er mjög erfitt að breyta um stefnu á stóru og þungu skipi. Ég ber mikla virðingu fyrir því vandamáli en þeim mun frekar finnst mér mikilvægt að hafist sé handa sem allra fyrst við að reyna að leysa það.

Aftur ber ég virðingu fyrir því að við eigum við mjög erfiðan fjárhag að stríða og því ekki augljóst undir hvaða kringumstæðum maður ætti að eyða 100 milljónum í hugbúnaðargerð eða eitthvað því um líkt. En mér finnst mikilvægt að halda þeirri umræðu á lofti. Mér finnst mikilvægt að hvert skref sem við stígum, hvaða ákvörðun svo sem við tökum, þá séum við líka með hugann við það hvernig við eigum að taka ákvörðun um þetta. Mér finnst svolítið skorta hér, af góðum ástæðum, að við höfum almennilegt tækifæri til að hleypa almenningi sérstaklega inn í þá umræðu.