143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:06]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. varaformanni fyrir að koma hingað inn í umræðuna og gefa okkur færi á að spyrja hann. Mig langar aðeins að spyrja um tillöguflutning minni hlutans sem eru fjögur atriði, ég ætla að sleppa fjarskiptasjóðnum en spyrja um hin þrjú atriðin.

Neyðarástand kom upp á Landspítalanum á fyrri hluta ársins og óskað var eftir viðbótarfjárveitingu. Það fór í gegnum ríkisstjórn, var afgreitt fyrir fram og upphæðin síðan eftir á. Hvers vegna er þessi upphæð ekki í fjáraukalögunum, þetta eru 125 milljónir? Sjálfur þekkir hv. þingmaður líka mjög vel reglurnar varðandi húsaleigu. Fasteignir ríkisins hækkuðu húsaleiguna eftir að fjárlög höfðu verið afgreidd. Óskað er eftir því að það verði þá fjármagnað á móti inn á heilbrigðisstofnanirnar, hvernig stendur á að því er sleppt?

Í síðasta lagi er ákall í fjölmiðlum til fjárlaganefndar að taka inn desemberuppbót hjá fólki í atvinnuleit. Hvernig stendur á að menn taka þann lið út miðað við yfirlýsingar um að hjálpa eigi þeim sem minna hafa?