143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

nauðungarsala.

232. mál
[00:54]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara í efnislega umræðu um þær tillögur sem liggja fyrir varðandi skuldavanda heimilanna og þá leiðréttingu sem við tölum fyrir í stjórnarmeirihlutanum og ég tel að sé til mikilla heilla fyrir íslenskt samfélag. Kannski verðum við hv. þingmaður seint sammála um það þannig að ég ætla ekki að eyða tímanum í það.

Ég ætla hins vegar að taka undir það með hv. þingmanni, og ég held við séum öll meðvituð um það í þessum sal eins og ég sagði áðan, að engin ein leið gagnast öllum eða leysir allra manna vanda. Ég held að við getum með sanni sagt, og allur þingheimur á auðvitað að vera stoltur af því, að við erum að gera það sem við teljum best og það sem við teljum að við getum gert. Meira er varla hægt að ætlast til. Ég er alveg sammála því og tek undir það með hv. þingmanni að það er auðvitað erfitt að sú staða er uppi að þessi aðgerð getur hjálpað ákveðnum hópi en það er jafn ljóst, líkt og hv. þingmaður segir og þekkir frá þeim tíma sem nauðungarsölur voru stöðvaðar áður, að þetta mun ekki leysa vanda allra. Það er staðan sem við stöndum frammi fyrir.

Þá minni ég á það sem við nefndum áðan, ég veit að það er líka kaldur raunveruleiki, að ég held að ekkert samfélag geti sagt með sanni að það hafi gengið í gegnum það ferli sem við höfum gengið í gegnum, meira að segja samfélög sem ekki hafa gengið í gegnum það ferli, að ekki standi einhver heimili frammi fyrir þessum veruleika. Hann er sár og erfiður en hann er hluti af okkar samfélagi.

Ég held líka og efast ekki um að aðrir munu nefna það hér í umræðunni að á því tímabili sem um ræðir, hvort sem það verður 1. júlí eða 1. september, sem ákveðin mál leysast að öllum líkindum fyrir dómstólum, getur verið að staðan skýrist gagnvart ákveðnum hlutum, sem er einnig mikilvægt.