143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég biðst velvirðingar en ég finn mig knúna til að koma hérna upp vegna orða hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur undir liðnum um störf þingsins en hún er jafnframt varaforseti í þinginu. Í orðum sínum var hún með aðdróttanir um að við í minni hlutanum hefðum staðið í vegi fyrir að hér mætti taka mikilvæg mál á dagskrá.

Hæstv. forseti veit jafn vel og ég að þessi mál komu svo seint inn að þau voru samþykkt á dagskrá með afbrigðum. Þar var ekki við minni hlutann að sakast, auk þess sem hér í upphafi þingfundar í gær var boðið að þessi mál yrðu tekin fram fyrir, þau rædd og afgreidd til nefndar.

Ég óska eftir því að hæstv. forseti taki það upp í forsætisnefnd að við í minni hlutanum séum ekki látin gjalda fyrir fundarstjórn forseta með snuprum héðan úr ræðustól. Mér mislíkar það og ég tel þetta óeðlilegt. Ég held að þingflokkarnir ættu frekar að leggja áherslu á það að ráðherrar þeirra kæmu hér málum til þings (Forseti hringir.) innan tilsetts tíma.