143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:30]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að 110%-leiðin hafi skilað ágætum árangri. Ég held að það sé staðfest í þeirri skýrslu sem núverandi ríkisstjórn hefur látið vinna og var lögð fram hér síðasta dag nóvembermánaðar. Þar er það óyggjandi staðfest, að ég tel, að 110%-leiðin hafi haft verulega þýðingu.

Þingmaðurinn spyr líka: Var hægt að gera meira, t.d. á síðasta ári? Menn geta alltaf velt því fyrir sér hvort hægt hafi verið að ganga lengra í þeim efnum. Ég man að þegar 110%-leiðin var til umræðu veltu menn því fyrir sér hvort hlutfallið ætti að vera lægra, t.d. 100%, en þá var talið að fasteignamarkaðurinn væri í svo mikilli lægð að hann ætti eftir að fara upp. Það var mat á þeim tíma og ég held að það sé reyndar rétt að fasteignamarkaðurinn hafi verið á uppleið. Ég er líka þeirrar skoðunar, get upplýst það hér, að ég tel að við hrunið sjálft, í október 2008, hefði átt að frysta verðtrygginguna, þ.e. vísitöluna, bara til þess að gefa (Forseti hringir.) fólki og samfélaginu tíma og ráðrúm. (Forseti hringir.) Það var ekki gert og það var miður, að mínum dómi.