143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:51]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var ýmislegt sem kom fram í ræðu hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur sem væri gaman að fara ofan í, en ég vil hins vegar fara fyrst ofan í rannsóknir og þróun. Nú talar hv. þingmaður eins og þetta verkefni hafi hreinlega verið skorið algjörlega niður. Það er auðvitað ekki svo ef sanngirni er gætt.

Þegar reiknaðar eru prósentur má sjá að inn á rannsóknir og þróun í fjárlögum fyrir árið 2014 er 32% hækkun frá árinu 2012. Hv. þingmaður mundi kannski segja mér hver hækkunin varð á árunum frá 2012 til 2013, í þeim fjárlögum. Mér finnst að menn tali hér eins og öll framlög til rannsókna og þróunar hafi bara verið skorin niður en það er ekki svo. Það er 32% hækkun (Forseti hringir.) frá árinu 2012.