143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[22:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að ég hefji ræðu mína í framhaldi af lokaorðum hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur áðan vegna þess að það skiptir nefnilega mjög miklu máli þegar við skoðum stöðuna hvaðan við erum að koma og hvað það þýðir og hvernig jöfnuður sem á að ná á árinu 2014 — og ég held ekki að nokkur maður hafi mótmælt að mikilvægt sé og verðmætt fyrir ríkissjóð að ná jöfnuði og geta sem fyrst komist á þann stað að mögulegt sé að greiða niður skuldir — og sá árangur byggir á því sem gerðist á síðasta kjörtímabili. Við tókum við erfiðu búi og ég held að allir átti sig á því. Við ákváðum að fara blandaða leið; skera niður í ríkisrekstri, hækka skatta en passa okkur á því þegar við vorum að skera niður að ganga ekki svo hart að stofnunum ríkisins að þeir sem þurfa helst á þjónustu þeirra að halda mundu þurfa að bera þyngstu byrðarnar af hruninu og að ganga ekki svo harkalega að fyrirtækjum og einstaklingum í skattheimtu að þeir gætu ekki borið þær.

Skattar voru ekki aðeins lagðir á til að auka tekjur ríkissjóð heldur einnig til að auka jöfnuð í samfélaginu því að það ná upp auknum jöfnuði í samfélagi er eftirsóknarvert. Það hafa margar lærðar greinar og bækur verið skrifaðar um hvernig samfélagið er og hvernig íbúunum líður þar sem meiri jöfnuður ríkir samanborið við samfélag þar sem ójöfnuður er. Þar sem jöfnuður er mestur eru glæpir fæstir. Þannig er, svo undarlega sem það hljómar, og þó er það kannski ekki svo undarlegt þegar við förum að skoða það nánar, að í þeim samfélögum er fólk líka heilbrigðara bæði á sál og líkama og það ríkir aukin sátt í þeim. Þetta eru allt saman mjög eftirsóknarverðir þættir. Það að eftir síðasta kjörtímabil hafi jöfnuður aukist í íslensku samfélagi er því mjög jákvætt en á árunum fyrir hrun hafði ójöfnuður hins vegar vaxið í samfélaginu og vaxið mest á Íslandi af vestrænum ríkjum.

Á þeim árangri sem fyrri ríkisstjórn náði byggir árangur um jákvæðan heildarjöfnuð í ríkisfjármálum sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ætlar sér að ná á árinu 2014.

Hv. formaður fjárlaganefndar talaði um í ræðu sinni fyrir stuttu að með breytingartillögum og fjárlagafrumvarpinu væri að nást þjóðarsátt og ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður hafi þar verið að vísa í að minni hlutinn hafði kallað hátt eftir auknum framlögum til heilbrigðiskerfisins og meiri hluti fjárlaganefndar gerir breytingartillögu þar um. Á síðasta kjörtímabili höfðum við séð að ekki yrði lengra gengið í heilbrigðiskerfinu og gerðum ekki kröfu um það á árinu 2013. Hins vegar er með fjárlagafrumvarpinu eins og það var lagt fram 1. október hafinn niðurskurður í heilbrigðiskerfinu að nýju. Sem betur fer í meðförum þingsins, í umræðum í samfélaginu og fyrir þingnefndum hefur meiri hlutinn ákveðið að draga þarna í land og það er vel og við getum verið sátt við þær tillögur. Aftur á móti eru aðrar tillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram sem rjúfa þverpólitíska sátt sem náðist á síðasta kjörtímabili. Breytingartillögurnar tvær þar sem sáttin er rofin eru um jöfnun húshitunar og um þróunaraðstoð.

Herra forseti. Á síðasta kjörtímabili starfaði hér starfshópur sem átti að koma með tillögur um hvernig væri hægt að jafna húshitun í landinu og starfshópurinn lagði fram tillögu. Hópurinn er stofnaður 2011 og í framhaldinu, eftir mikla vinnu, leggur hann fram tillögu sem gengur út á að þeir sem kaupa rafmagnið borgi ákveðið gjald sem gengur síðan til jöfnunar á dreifikostnaði og þannig jafnist kostnaður á húshitun. 10% landsmanna búa við mjög háan húshitunarkostnað og sá hái kostnaður hefur stuðlað að búseturöskun og veikt samfélögin og þessi þungi kostnaður hefur haft áhrif á lífskjör fólks og val á búsetu á þessum svæðum. Það var því eftir miklu að slægjast að finna leiðir til þess að jafna kostnaðinn og starfshópurinn sagði: Við skulum leggja hóflegt gjald á hverja keypta kílóvattstund og það gengur síðan til þess að jafna kostnaðinn.

Á 140. löggjafarþingi var lagt fram samhljóða frumvarp. Frumvarp sem fylgdi tillögum starfshópsins eftir og það var með þverpólitískum stuðningi. Reyndar var það hæstv. forseti Alþingis, sem þá var þingmaður, sem var 1. flutningsmaður á því frumvarpi og með honum voru flutningsmenn úr öllum flokkum. Raforkuskattur sem nú er innheimtur er tekinn af hverri keyptri stund. 80% af notendum rafmagns á Íslandi eru, eins og kunnugt er, stóriðjufyrirtæki þannig að þau fyrirtæki bera 80% af þessum raforkuskatti sem er tímabundinn og ný ríkisstjórn hefur sagt að verði ekki framlengdur. Ný ríkisstjórn hefur talað um að framlengja ekki þennan raforkuskatt sem að stærstum hluta álverksmiðjur og stóriðjan í landinu bera, auðvitað heimili einnig en að stærstum hluta stóru fyrirtækin, þessir stórnotendur.

Ríkisstjórnin nýja boðar núna með breytingartillögum við fjárlög að það eigi að koma nýtt frumvarp sem leggur kostnað á þá sem nota dreifikerfin. Markmiðið með þessu hlýtur þá að vera að sleppa stóriðjunni við þetta gjald. Leggja allan jöfnunarkostnaðinn á heimili í þéttbýli til þess að sneiða hjá því að stórkaupendur raforku sem ekki nýta dreifikerfin þurfi að greiða til þessara mála.

Virðulegur forseti. Mér finnst mjög undarlegt að verið sé að koma hér með tillögu um hvernig eigi að jafna húshitunarkostnað, sem allir vilja stefna að, sem er algjörlega úr takti við það sem lagt var til á síðasta kjörtímabili og meira að segja núverandi hæstv. forseti Alþingis lagði fram frumvarp um ásamt fleiri þingmönnum úr öðrum flokkum.

Ég skil ekki hvað þetta á að þýða nema þá að hæstv. ríkisstjórn sé svona mikið í mun að létta kostnaði af stórnotendum, af stóriðjunni í landinu, en finnist í lagi að leggja aukinn kostnað á heimilin hvað þetta varðar. Þarna er verið að rjúfa sátt.

Um hitt málið var ekki aðeins sátt hér á Alþingi, fyrir utan einn hv. þingmann sem greiddi atkvæði á móti þingsályktunartillögunni um þróunarsamvinnu, heldur í samfélaginu öllu. Allar kannanir sýna að Íslendingar vilja leggja sitt af mörkum til þróunarsamvinnu og það kom skýrt fram í umræðum hér og í þingsályktunartillögunni sem samþykkt var árið 2011 á Alþingi en síðan var uppfærð áætlun vorið 2013. Þar er markmið þróunarsamvinnunnar tekið skýrt fram: Að leggja íslensk lóð á vogarskálar baráttunnar gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum í fátækustu hlutum heims. Með virkri þátttöku á því sviði leitast Ísland við að uppfylla pólitískar og siðferðilegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna og er alþjóðleg þróunarsamvinna ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu. Því er slegið föstu í ályktuninni að barátta gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu lífsgæða og hungri í heiminum sé áfram þungamiðja í stefnu Íslands á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og að lögð verði rík áhersla á mannréttindi, jafnrétti kynjanna, réttindi barna, frið og öryggi og leitast verði við að tryggja innbyrðis samræmi í utanríkisstefnu Íslands með tilliti til hnattrænna efnahags-, umhverfis- og öryggismála. Íslensk þróunarsamvinna endurspegli þannig þau gildi sem íslenskt samfélag stendur fyrir: Virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum, fjölbreytni mannlífs, umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu.

Hv. meiri hluti fjárlaganefndar kemur síðan með þá tillögu að skera niður í þróunaraðstoð núna þegar Ísland er á þeim stað að sjá fram úr þeim vanda sem blasti við haustið 2008. Þegar við sjáum fram á jákvæðan heildarjöfnuð á árinu 2014 og erum komin á þann stað að við getum farið að skipuleggja til framtíðar er það forgangsverkefni að skera niður þróunaraðstoð. Þetta er með ólíkindum og eins og ég sagði áðan er verið að rjúfa sátt alþingismanna um þróunaraðstoð og sáttina í samfélaginu sem er um að Ísland, hið ríka Ísland gefi með sér og styrki þau gildi sem íslenskt samfélag stendur fyrir. Ég vil endurtaka að gildin eru virðing fyrir lýðræði og mannréttindum, fjölbreytni mannlífs, umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu og í þeim anda eigum við að standa við þingsályktunartillöguna og þær áætlanir sem þar voru gerðar og stefna að því að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna í áföngum og vera stolt af því.

Þegar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir talar um þjóðarsátt geri ég ráð fyrir að hún sé að vísa til heilbrigðismálanna og þeirra breytingartillagna sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram í þeim málaflokki en varla er hún að tala um frumvarpið í heild eða breytingartillögurnar í heild því að þar á meðal, eins og ég hef bent á, eru að minnsta kosti tvær sem rjúfa sátt sem var búið að ná, þverpólitíska sátt.

Virðulegur forseti. Ég vil nefna hér menntamál því að ég hef virkilegar áhyggjur af rekstrarstöðu framhaldsskólanna. Þannig var statt í framhaldsskólunum þegar hrunið varð að árin fyrir hrun var búið að hagræða mjög mikið í þeim. Búið var að taka upp reiknilíkan og fjölga í hópum og hagræða heilmikið þegar hrunið varð og þá þurfti að fara að draga saman og skera niður aftur vegna þess að brúa þurfti stórt gat. Það var gert en samt sem áður lagði fyrri ríkisstjórn á það mikla áherslu að skólarnir væru opnir öllum og lögðu fé til þess að gera skólunum kleift þrátt fyrir niðurskurð að taka á móti öllum þeim sem óskuðu þar eftir skólavist. Framhaldsskólarnir tóku ríkan þátt í aðgerðum sem voru settar af stað vegna ungs atvinnulauss fólks enda þegar við litum til annarra landa og vildum læra af reynslu þeirra við að koma sér í gegnum kreppu voru þetta helstu skilaboðin: Ekki loka skólunum fyrir ungu atvinnulausu fólki. Ekki vísa ungu fólki frá menntunartækifærum.

Ég hef áhyggjur af því að nú sé rekstrarstaða skólanna þannig, eftir að þróunarfé er skorið niður eins og tillögur eru um í þessu frumvarpi, að skólarnir þurfi að vísa nemendum frá. Í mínum huga væri það stór skaði. Það væri stór skaði. Það er alveg sama hvernig við lítum á málið, það er skaði fyrir unga fólkið og það er skaði fyrir samfélagið. Ég tala nú ekki um þegar um leið eru skorin niður verkefni sem eiga að aðstoða ungt atvinnulaust fólk. Ef þetta verður að veruleika, sem má í rauninni aldrei verða heldur á að halda skólunum opnum og sjá til þess að það verði mögulegt, og vísa þarf ungu fólki frá framhaldsskólanámi mun það hafa aukaverkanir sem munu vara og hafa áhrif á líf ungmennanna langt fram eftir ævi þeirra. Þetta þekkjum við frá öðrum löndum. Ef við viljum í alvöru tryggja hagvöxt til framtíðar eigum við að leggja áherslu á menntamálin og raða framhaldsskólunum framar.

Nú er það svo að hæstv. menntamálaráðherra hefur talað um skipulagsbreytingar í framhaldsskólum og ég er sammála honum í því að fara eigi í þá vinnu en framhaldsskólakerfið er stórt kerfi og það þarf að huga að hag nemenda og það þarf að huga að hag starfsmanna. Það þarf einnig að huga að aðgengi til náms og góðri byggðastefnu þar sem menntastofnanir eru hornsteinar í hverju samfélagi. Slík stór skipulagsbreyting verður ekkert gerð á örfáum vikum en þó er lagt til hér með breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar að 6. gr. heimild — það er óskað eftir 6. gr. heimild til að taka á leigu viðbótarhúsnæði fyrir framhaldsskóla og háskóla í tengslum við sameiningar, breytingar og hagræðingu á starfseminni og í skýringu með heimildarbeiðninni segir að verið sé að fara yfir rekstrarumhverfi skólanna með tilliti til hugsanlegrar sameiningar eða annarra breytinga í starfsemi þeirri og að ráðuneytið telji mikilvægt að hafa svigrúm til að takast á við þær með stuttum fyrirvara.

Við hljótum að spyrja, eins og væntanlega allt skólafólk í landinu, af hverju hæstv. menntamálaráðherra þarf svona opna víðtæka heimild fyrir hvaða skóla sem er, hvar sem er á árinu 2014. Af hverju er það? Á að þvinga í gegn skipulagsbreytingu á framhaldsskólunum á vorönninni þannig að framkvæmdin fari fram í haust? Það væri mikill skaði og ég í sjálfu sér trúi því varla en einhverra hluta vegna telja menn nauðsynlegt að hafa slíka opna heimild. Það væri allt öðruvísi að biðja um þess háttar heimild fyrir ákveðinn skóla, eitthvert afmarkað landsvæði en það er allt undir. Með stuttum fyrirvara gæti þurft að gera ráðstafanir í húsnæðismálum vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga.

Virðulegur forseti. Í lögum um framhaldsskóla er ekki settur lágmarkseiningafjöldi þannig að í sjálfu sér þarf ekki að breyta lögunum ef lækka á einingafjöldann sem dugir til stúdentsprófs eða til starfsnámsprófa, en varla á það að nægja, ein reglugerðarbreyting og skólarnir mega síðan sjálfir ráða því hvað einingarnar eru margar og hvort þeir hafi umgjörðina til stúdentsprófs þrjú ár … (Forseti hringir.).

(Forseti (KLM): Forseti biður þingmann að afsaka að hann þurfi að grípa inn í ræðu hv. þingmanns en þannig háttar til að óskað hefur verið eftir að hlé verði gert á þessum fundi til að tóm gefist til að halda þingflokksfundi hjá einhverjum þingflokkum. Ég þarf því vinsamlegast að biðja hv. þingmann að fresta ræðu sinni nú. Það er 6,5 mínútur eftir og nokkur andsvör.)

Sjálfsagt.

(Forseti (KLM): Takk. Þá verður þessum fundi frestað til kl. 23.15. Fundinum er frestað.)