143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi.

209. mál
[12:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. ræðumanni, Frosta Sigurjónssyni, að því ber auðvitað að fagna að tekin hafi verið sú afstaða að beita ekki sektarákvæðum laganna nú um sinn þannig að þau fyrirtæki sem lögin ná til hafi betri tíma til aðlögunar að þessum nýju reglum.

Ég vil geta þess að ég leggst ekki gegn málinu í þessari umræðu en vildi hins vegar geta þess að út frá lögfræðilegum sjónarhóli hefði kannski verið betra að fresta gildistökunni frekar en að fresta bara sektarákvæðinu, það hefði verið meira samræmi í því. En eins og ég segi þá leggst ég ekki gegn framgangi þessa máls enda held ég að það sé þó til bóta að fresta þessum sektarákvæðum.