143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

loftslagsmál.

214. mál
[12:41]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Haraldur Einarsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál, með síðari breytingum (fjárhæð losunargjalds).

Nefndin fékk á sinn fund Glóeyju Finnsdóttur frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til að kynna frumvarpið. Nefndinni bárust engar umsagnir.

Meginefni frumvarpsins er að lagðar eru til breytingar á fjárhæð losunarheimilda samkvæmt 4. mgr. 14. gr. laganna. Um er að ræða losunargjald sem lagt er á rekstraraðila starfsstöðva sem undanskildar hafa verið gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Í núgildandi lögum er kveðið á um að gjaldið fyrir árið 2013 sé 1.338 kr. fyrir hvert tonn gjaldskyldrar losunar. Í lögunum er tilgreint að gjald fyrir hvert tonn losunar skuli jafngilda meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. ágúst árið áður en hin gjaldskylda losun á sér stað og skal það ákveðið með lögum. Jafnframt er kveðið á um að gjaldið skuli renna í ríkissjóð.

Lagt er til að gjaldið fyrir árið 2014 verði 892 kr. Er það miðað við meðalverð losunarheimilda á tímabilinu 1. september 2012 til 31. ágúst 2013. Gjaldið er reiknað út af KPMG ehf., en fyrirtækið var fengið til að útbúa skýrslu um meðalverð á tímabilinu. Fyrirtækin sem gjaldskyldan nær til fá úthlutað losunarheimildum og gjaldið verður lagt á hvert tonn losunar umfram heimildir.

Eins og fram kemur í athugasemdum við 14. gr. frumvarps þess sem varð að lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, er gert ráð fyrir að gjaldið verði endurskoðað á hverju ári miðað við nýjar upplýsingar. Því þarf fyrir lok hvers árs að breyta því ártali og þeirri fjárhæð sem fram kemur í 4. mgr. 14. gr. laganna. Með þeim hætti verður losunargjaldið sem lagt er á vegna losunar hvers almanaksárs ljóst fyrir upphaf viðkomandi árs.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir nefndarálitið rita Katrín Júlíusdóttir, framsögumaður, Höskuldur Þórhallsson, Birgir Ármannsson, Róbert Marshall, Brynjar Níelsson, Katrín Jakobsdóttir, Vilhjálmur Árnason. Einn þingmaður var fjarverandi.

Virðulegi forseti. Við leggjum til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.