143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:55]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér leggjum við til að bæta við framlögum til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og þróunaraðstoðar. Við erum í raun búin að spara fyrir helmingnum af þeim framlögum með því að spara loftrýmiseftirlit og aðra alþjóðlega samvinnu sem lýtur að veru okkar í hernaðarbandalagi. Utanríkissamstarf og alþjóðlegt samstarf sem byggist á samvinnu og friði er talsvert heillavænlegra en þátttaka í hernaðarbandalögum, og ég horfi á hæstv. utanríkisráðherra þegar ég segi þetta. Það er eiginlega síðasta sort að okkar mati að skerða þau verkefni sem Íslendingar hafa verið að taka þátt í í fátækustu löndum heimsins til að koma skikki á ríkisfjármál, því að við þurfum auðvitað að horfa á stóra samhengið þar sem Ísland er í hópi 20 ríkustu ríkja heims en þessi ríki eru talsvert neðar á þeim lista.