143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:55]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þessari 2. umr. um fjárlög fyrir 2014 er nú að ljúka og ég verð að segja að hún hefur gengið mun snöfurmannlegar fyrir sig en þegar núverandi hæstv. ríkisstjórnarflokkar voru í stjórnarandstöðu (Gripið fram í: Gott frumvarp.) og atkvæðagreiðslan tók þá fjóra, fimm klukkutíma enda fóru menn hér upp í atkvæðagreiðslu hver á fætur öðrum, jafnvel 60 sinnum eða svo.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt fram margvíslegar breytingartillögur um eflingu á þáttum sem við teljum mikilvæga, eins og rannsóknir og þróun í landinu, jöfnun á námskostnaði, Ríkisútvarpið og framlög til lista og menningar. Sérstaklega er ástæða til að nefna aukin framlög til þróunarsamvinnu. Við fögnum að sjálfsögðu auknum fjármunum í heilbrigðismálin en teljum að gera hefði þurft mun betur. Ég nefni framlög til sóknaráætlana landshluta o.fl. Því miður hafa þessar tillögur verið felldar.

Það er enn von, 3. umr. er eftir. (Forseti hringir.) Frumvarpið gengur nú til fjárlaganefndar og við munum að sjálfsögðu leggja okkar inn í þá umræðu og vonum að frumvarpið taki enn frekari breytingum til bóta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)