143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[23:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég svaraði eiginlega sambærilegri spurningu frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni áðan. Ég fór yfir það að sú staða hefði verið uppi í Orkuveitunni, a.m.k. þegar ég kom að þeim málum á vettvangi þingsins í meiri hluta á árinu 2009 eftir hrunið, að gera þetta með þessum hætti. Ég rakti það líka að við hefðum rætt, alla vega í mínum þingflokki, hvort menn ættu að reyna að fara alla leið en niðurstaðan varð í því stjórnarsamstarfi sem við áttum þá og miðað við þau viðhorf sem við vissum að voru í pólitíkinni almennt hvað þetta varðaði að þetta væri fullnægjandi leið hvað okkur snerti. Ég hugsa að ef við hefðum verið einvöld með hreinan meiri hluta hefði kannski verið staðið á annan hátt að málinu, en það er hypótetísk spurning sem er ekki hægt að fullyrða algerlega um.

Hv. þingmaður segir þetta vera tvö aðskilin mál og ég segi já en kannski líka nei. Að vissu leyti eru þetta tvö aðskilin mál. Hann orðar það þannig að önnur orkufyrirtæki hafi þurft að sæta uppskiptingu og mér finnst mikilvægt að spyrja um kjarna málsins. Hvað er það sem við raunverulega viljum í þessu máli? Það að fullkomna verkið með Orkuveituna er eiginlega aðeins til að uppfylla formsatriðin en ekki að taka á efni málsins. Kjarninn í málinu er, eins og ég horfi á það, að almenningur borgar brúsann út af tilskipuninni og uppskiptingunni. Orkuverð hefur hækkað og það er almenningur sem borgar það. Mér finnst að hagsmunir þeirra verði að ráða ferðinni í þessu máli en ekki formsatriði um það hvort við náum sama praxís á öllum orkufyrirtækjunum fyrr eða seinna. Þetta hefur verið ólíkt á milli orkufyrirtækjanna um eitthvert skeið. Spurningin er hvort öllu máli skipti ef svo er aðeins lengur (Forseti hringir.) ef það þjónar efni málsins, þ.e. að mæta hagsmunum almennings í málinu, sem ég tel að séu ríkir, og þá þannig að reyna að vinda eitthvað ofan af tilskipuninni — (Gripið fram í: Og gæta jafnræðis.) og gæta jafnræðis, já, en það er hægt að fara í báðar áttir hvað það varðar.