143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

skattar á fjármálafyrirtæki.

[10:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mikilvægt er að hafa í huga að það er ekki eingöngu fjármálafyrirtæki í slitum sem greiða bankaskatt, fjármálafyrirtækin í landinu greiða einnig þennan sama skatt. Ég tek eftir því að hv. þingmaður hefur áhyggjur af því að það kynni að fara svo á komandi árum að slitum fjármálafyrirtækja muni ljúka og þar með muni þau hverfa sem greiðendur þessa skattstofns, en ég bendi á að við slík slit mun fyrst og fremst reyna á útgreiðslu af eignum þrotabúanna og í tengslum við afnám gjaldeyrishaftanna mun líka reyna á leiðir til þess að létta snjóhengjuna vegna aflandskróna. Í því samhengi hafa verið viðraðar ýmiss konar hugmyndir sem geta á endanum skilað ríkinu skatttekjum eins og sérstakur útgönguskattur. Við höfum því tímann sem er fram undan til að taka (Forseti hringir.) á þeirri stöðu sem kann að þróast í þessum efnum. (Forseti hringir.) Eitt er alveg skýrt í mínum huga, (Forseti hringir.) það er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því (Forseti hringir.) að ríkið muni verða af tekjum í þeirri þróun.