143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

framlög til hjúkrunarheimila.

[11:01]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Málefni hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar hafa verið töluvert til umræðu að undanförnu vegna fjárhagsörðugleika heimilisins. Í kjölfar frétta af Sunnuhlíð hafa líka birst fréttir og yfirlýsingar um að líkt sé komið með fleiri öldrunarstofnunum. Þessar fréttir ættu ekki að koma á óvart því að um árabil hefur verið vitað að framlög til þessara stofnana eru of lág. Í þau bráðum 20 ár sem sá sem hér stendur hefur starfað á hinum ýmsu stofnunum í þessum geira hefur alltaf verið talað um að þau berjist í bökkum, framlög væru of lág miðað við kröfur og væntingar sem samfélagið hefur til þjónustu þeirra. Nú hefur verið bankað fastar á dyr en áður. Stjórn Sunnuhlíðar hefur í rauninni sagt sig frá verkefninu og leitað ásjár opinberra aðila. Vandinn sem við höfum heyrt um í fjölmiðlum er vel á þriðja hundrað milljónir kr. Það er sú upphæð sem snýr að því að leysa bráðan fjárhagsvanda Sunnuhlíðar, þá er eftir að leysa vandann til framtíðar.

Daggjöld til Sunnuhlíðar eru á þessu ári 8,2 milljónir með hverju rými, en 2009 voru þau 7,3 milljónir. Hækkunin á fimm árum er því 12%, langt innan við verðlagsþróun.

Frjáls félagasamtök reistu Sunnuhlíð og hafa rekið heimilið frá upphafi með daggjöldum frá ríkinu. Langflestir Kópavogsbúar á þeim tíma tóku þátt í að safna fyrir heimilið og bæjarbúar á mínum aldri muna vel eftir gulu baukunum sem gengið var með í hús til að safna, því má segja að bæjarbúar hafi mjög sterkar taugar til heimilisins.

Vandi heimilisins nú er meiri en svo að hann verði leystur með samskotum. Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra eftirfarandi spurninga:

Hvað hyggst ráðherrann gera til að leysa úr vanda Sunnuhlíðar og tryggja rekstur heimilisins áfram?

Hvað hyggst ráðherrann gera til að tryggja að rekstur hjúkrunarheimila á landinu geti staðið traustum grunni til frambúðar?

Hyggst ráðherrann beita sér fyrir því við 3. umr. fjárlaga að daggjöld verði hækkuð (Forseti hringir.) þannig að forða megi heimilisfólki, aðstandendum og starfsfólki (Forseti hringir.) hjúkrunarheimila frá uppákomum svipuðum þessari?