143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[10:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er gert ráð fyrir tilteknum breytingum til að gera Ríkisútvarpinu kleift að þola þá vængstýfingu sem ríkisstjórnin stefnir að á þeirri stofnun. Til þess er komið með hugmyndir og tillögur sem fela í sér að fresta því að setja samkeppnisrekstur stofnunarinnar í sérstakt félag.

Það kom fram við vinnslu nefndarinnar að ekkert liggur fyrir um það að Eftirlitsstofnun EFTA muni samþykkja þessar tillögur. Þvert á móti liggur fyrir úr langri vinnu íslenskra stjórnvalda með Eftirlitsstofnun EFTA á undanförnum árum að þeim leiðum sem hæstv. ríkisstjórn segist núna ætla að fara til þess að bjarga sér í fjárlagagerðinni hefur verið hafnað. Ekkert sýnir betur hversu vanhugsaðar þessar aðgerðir eru.