143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

237. mál
[16:42]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get einungis ítrekað það sem ég hef sagt áður í þessari umræðu. Sú stefna sem ég studdi með því að vera meðflutningsmaður á fyrra frumvarpi var að jafna bæri kostnaðinn á milli dreifbýlis og þéttbýlis þegar kemur að dreifingu á rafmagni. Í því tilfelli var líka verið að fjalla um húshitun. Ég er líka hlynnt því, (Gripið fram í.) en það er ekki í þessu máli eins og ég fór yfir í ræðu minni.

Ég vona að hv. þingmaður fyrirgefi mér þó að við yfirlegu yfir þessu máli hafi ég komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri betri leið til að taka á raforkudreifingunni. Ég útiloka ekki að komið verði fram með breytingar hvað varðar niðurgreiðslu á húshitun. Það er eins og ég segi til skoðunar í ráðuneytinu, en það er ekki til umræðu í þessu frumvarpi.