143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[15:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017, sem er á þskj. 468.

Tillagan byggir á 7. gr. laga um Byggðastofnun, nr. 106/1999, en þar segir:

„Ráðherra leggur fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir fjögurra ára tímabil. Áætlunin skal lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum, áætlunum um aðgerðir og tengsl byggðastefnu við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu í landinu.“

Áhersluatriði áætlunarinnar byggja á byggðakafla stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, gagnavinnu Byggðastofnunar og aðkomu sérfræðinga úr nokkrum ráðuneytum. Samráð var haft við stýrinet Stjórnarráðsins, Samband íslenskra sveitarfélaga og atvinnuþróunarfélaganna um land allt og Byggðastofnun líka.

Markmið byggðaáætlunar er að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu, þjónustu og annarra lífskjara og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstök áhersla er lögð á stuðning við svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.

Áætlunin verður endurskoðuð og uppfærð að hámarki að tveimur árum liðnum og reiknað er með að þá verði skerpt enn frekar á þessari stefnumörkun, þ.e. að unnin verði byggðastefna sem byggðaáætlun framtíðarinnar muni byggja á.

Byggðaáætlunin er sett fram í fjórum köflum sem ætlað er að lýsa helstu áhersluatriðum byggðastefnu landsins.

1. kafli fjallar um innviði samfélagsins. Þar er fjallað um markmið ríkisins um uppbyggingu fjarskiptanetsins til að tryggja háhraðatengingar um land allt, um afhendingaröryggi raforku, um jöfnun kostnaðar við dreifingu rafmagns og jöfnun húshitunarkostnaðar.

2. kafli er helgaður varnarsvæðum landsins, þ.e. þeim svæðum sem eiga í vök að verjast vegna fólksfækkunar, einhæfni atvinnulífs eða annarra þátta.

3. kafli fjallar um almennar og sértækar aðgerðir til stuðnings við atvinnulíf, atvinnuuppbyggingu og nýsköpun, sérstaklega hvað varðar vaxtargreinar á borð við ferðaþjónustu, fullvinnslu matvæla og skapandi greinar. Einnig er fjallað um ívilnandi stuðning til atvinnuuppbyggingar til að mynda á Bakka við Húsavík og mögulegan stuðning við uppbyggingu á Helguvíkursvæðinu. Einnig er boðað að ráðist verði í greiningu á mögulegri aðkomu ríkisins að öðrum svæðum.

4. og síðasti kafli er helgaður nauðsynlegri stefnumótunarvinnu um skilgreiningar á rétti allra landsmanna til aðgengis að grunnþjónustu ríkis og sveitarfélaga. Jafnframt er fjallað um gagnasöfnun og greiningarvinnu um byggðamál, sem er nauðsynleg undirstaða vandaðrar vinnu við mótun byggðastefnu.

Í áætluninni er fjallað um tengsl byggðaáætlunar og sóknaráætlana landshlutanna. Gert er ráð fyrir að sóknaráætlanir fái aukið hlutverk sem vettvangur fyrir áætlanagerð og forgangsröðun landshlutanna og að áherslur byggðaáætlunar komi að hluta til framkvæmda í gegnum sóknaráætlanir.

Sem fylgiskjal við byggðaáætlun 2014–2017 er stöðugreining 2013 sem Byggðastofnun hefur tekið saman. Stöðugreiningin inniheldur mikið magn upplýsinga um byggðamál hérlendis og hefur verið nýtt við mótun aðgerða fyrir byggðaáætlunina.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum þingsályktunartillögunnar og legg til að henni verði vísað til síðari umr. og hv. atvinnuveganefndar.