143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir kom hér inn á dæmi sem að einhverju leyti endurspeglar þann bráðavanda sem knýr á á húsnæðismarkaði. Nú háttar svo til að fyrir dyrum er í störfum okkar að vinna úr margvíslegum málum sem snúa að húsnæðismarkaði, fjármögnun og framtíðarskipan húsnæðismála á Íslandi. Frumvörp um skuldaleiðréttingu munu koma til okkar kasta innan skamms. Handan við hornið eru niðurstöður vinnuhóps um afnám verðtryggingar sem er á ábyrgð hæstv. forsætisráðherra. Þá hefur hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjallað um og haldið fjölmarga opna fundi um skýrslu Íbúðalánasjóðs og mun á næstunni taka þá umfjöllun hingað inn í þingið. Verkefnishópur undir forustu hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra mun skila af sér niðurstöðum og tillögum um framtíðarskipan húsnæðismála.

Virðulegi forseti. Ég tek þetta fram og dreg saman hér vegna þess að við erum öll, og eigum að vera það, meðvituð um brýna þörf og nauðsyn þess að koma skikki á húsnæðismarkaðinn á Íslandi. Sú staðreynd að þessi mál koma til kasta okkar hér og í slíkri samfellu er auðvitað ekki tilviljun en að sama skapi gríðarlegt tækifæri, tækifæri til þess að við náum árangri í þeirri viðleitni okkar að hér geti allir Íslendingar fundið úrræði við sitt hæfi á viðráðanlegum kjörum.

Virðulegi forseti. Ég hef þá trú að Íbúðalánasjóður muni í endurskipulagðri mynd verða hryggjarstykkið í þeirri framtíðarskipan húsnæðismála sem hæstv. húsnæðismálaráðherra mun birta okkur í þinginu. Tryggja þarf félagsleg úrræði, tryggja þarf jafnræði valkosta á landsvísu og umfram allt þarf að tryggja valkosti séreignar og leigu og þá í gegnum húsnæðisleigufélög sem ráða við að bjóða raunhæft verð.