143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

fjármálafyrirtæki.

274. mál
[16:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum. Um nokkurt skeið hefur verið unnið að því innan Evrópusambandsins að setja samræmdar reglur um skilameðferð fjármálafyrirtækja. Með skilameðferð er átt við allt ferlið frá því að fjármálafyrirtæki í kröggum fær, eða getur fengið, aðstoð til fjárhagslegrar endurskipulagningar og allt að því að slitameðferð lýkur. Gerð þessi er í formi tilskipunar sem tekin verður upp í EES-samninginn og heitir á ensku „Directive on Bank Resolution and Recovery“. Stefnt er að því að gerðin verði tekin upp í EES-samninginn, það stefnir allt í að svo verði, en þetta er eitt af mikilvægum sviðum EES-samstarfsins og ekki við öðru að búast en að vinnunni fari að ljúka.

Upphaflega var stefnt að því af hálfu Evrópusambandsins að tilskipunin yrði gefin út veturinn 2012–2013 en vinna við hana dróst á langinn vegna ágreinings um nokkra þætti hennar. Vó þar þyngst ágreiningur um fyrirkomulag sameiginlegs skilameðferðarsjóðs.

Nú virðist fundin lausn á þeim ágreiningsefnum sem töfðu lokafrágang gerðarinnar. Fyrir rúmu ári var skipuð nefnd sérfræðinga til að hefja undirbúning innleiðingar gerðarinnar. Var við það miðað að unnt yrði að leggja fram frumvarp til nýrra heildarlaga á Alþingi um skilameðferð fjármálafyrirtækja síðastliðið haust. Tafir á lokaútgáfu tilskipunarinnar hafa leitt til þess að af þessu hefur ekki getað orðið. Það er óvarlegt að reikna með að nefndin nái að skila ráðherra frumvarpsdrögum fyrr en líða tekur á þetta ár. Af þeim sökum er nú stefnt að því að unnt verði að leggja nýtt frumvarp fram á löggjafarþinginu 2014–2015.

Ég rek þetta, virðulegi forseti, af þeirri ástæðu að vegna tafanna sem ég hef hér gert grein fyrir og þeirra áhrifa sem þær tafir hafa haft á undirbúning innleiðingarinnar hér á landi er nauðsynlegt að framlengja gildistíma ákvæðis til bráðabirgða nr. VI við umrædd lög enn um sinn.

Ákvæðið sem upphaflega var sett með lögum nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., neyðarlögunum svokölluðu, veitir Fjármálaeftirlitinu heimild til þess að grípa til sérstakra ráðstafana í samræmi við fyrirmæli ákvæðisins til þess að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Hér er lagt til að gildistími ákvæðisins verði framlengdur til 31. desember 2015. Ekki eru lagðar til aðrar breytingar á ákvæðinu. Ákvæðið hefur tvisvar áður verið framlengt, fyrst með lögum nr. 78/2011 og síðan með lögum nr. 77/2012.

Ákvæði í sömu eða efnislega sambærilegum myndum munu verða í frumvarpi að nýjum heildarlögum um skilameðferð fjármálafyrirtækja sem unnið er að á vegum ráðuneytisins og ég hef hér áður vikið að. Eins og áður segir er stefnt að því að leggja það frumvarp fram á löggjafarþinginu 2014–2015.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.