143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

stefna stjórnvalda í áfengis- og vímuefnamálum.

[15:27]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Kofi Annan, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði í umræðum á World Economic Forum í síðustu viku:

„Eiturlyf hafa eyðilagt líf margra en röng stefna stjórnvalda hefur eyðilagt líf miklu fleiri. Við þurfum að horfa á stefnuna og spyrja okkur: Er hún að virka? Ef hún er ekki að virka, höfum við þá hugrekki til að breyta henni? Hverjar eru afleiðingar þessarar stefnu? Að minnsta kosti er nauðsyn á almennri umræðu um þennan málaflokk.“

Það er því gleðiefni að í nýrri stefnu í áfengis- og vímuefnum til ársins 2020 segir að heilbrigðisráðherra hafi ákveðið að fara svipaða leið á Íslandi þegar kemur að því að mikil áhersla skuli lögð á samþættingu, samfellu í þjónustu, gæði þjónustunnar fyrir einstaklinga sem þurfa á aðstoðinni að halda, jöfnuð, forvarnir og heildræna nálgun.

Við píratar höfum byggt á víðtækum, alþjóðlegum rannsóknum, meðal annars War on Drugs. Report of the Global Commission on Drug Policy sem Kofi Annan fór fyrir og margir forsetar Rómönsku-Ameríku, forseti Sviss og fleiri áhrifamenn, þar sem þeir benda á að núverandi stefna sé ekki að virka og að við þurfum að prófa aðrar leiðir. Við þurfum að opna umræðuna um þennan mikilvæga málaflokk og gagnrýna aðferðir, skýrslu um það. Hér er skýrsla frá Portúgal um leið sem var tekin 2001 þar sem mótuð var heildstæð stefna um að minnka eftirspurnina. Þar áttuðu menn sig á að til þess að gera það þyrfti að hætta að gera fíkla að glæpamönnum, til þess að ná til þeirra, fá þá inn, færa þá úr dómskerfinu inn í heilbrigðiskerfið.

Við erum með þingsályktunartillögu um að skapa slíka heildstæða stefnu, þ.e. að starfshópur skuli skipaður af heilbrigðisráðherra og af fagaðilum (Forseti hringir.) til að fara í að meta þetta og skoða bestu lagalegu úrræði sem til eru í heiminum í dag.

Ég vil spyrja heilbrigðisráðherra hvað honum finnst um málið.