143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

staða sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu.

[16:48]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna og þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þau orð hans að það sé eindreginn og einlægur vilji hans að semja við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins í þessu máli. Þann vilja þarf hæstv. ráðherra að sýna í verki. Mér finnst miðað við þá umræðu sem hér hefur verið að hann sé einlæglega hvattur til þess að sýna þann vilja sinn í verki með því að semja við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins.

Hæstv. ráðherra segir að hann hafi sagt að það eigi að greiða raunkostnað við sjúkraflutningana. Er það ekki svo að í skýrslu KPMG er verið að tala um að raunkostnaðurinn sé um 1.120 til 1.130 millj. kr. á ári fyrir sjúkraflutningana? Er það ekki líka svo að í plagginu frá 1. febrúar 2013 var gert ráð fyrir að greiddar yrðu 708 millj. kr. fyrir þessa þjónustu á ári 2013–2015, sem er 148 millj. kr. lægra en KPMG gerði þrátt fyrir allt ráð fyrir, meðal annars vegna hagræðis?

Það verður líka að gæta að því að sjúkraflutningar hafa aukist. Hæstv. ráðherra segir að gæta verði aðhalds. Það er rétt, en ýmsar ástæður eru fyrir því að sjúkraflutningarnir aukast, meðal annars fjölgun íbúa á svæðinu og kannski ekki síst fjölgun íbúa í elsta og eldri aldurshópnum sem leiðir til fjölgunar sjúkraflutninga. Hvernig ætlar hæstv. heilbrigðisráðherra að taka á því? Ætlar hann að beita sér fyrir fækkun í þeim aldurshópi? Ráðherrann verður að horfast í augu við það að hér eru eðlilegar skýringar á ferðinni sem heilbrigðisþjónustan og hann sem heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin verður að bregðast við.

Jafnvel þótt ekki hafi tekist að klára alla vinnu við þetta mál eins og ýmis önnur á liðnu kjörtímabili er það sem betur fer þannig að ný ríkisstjórn tekur við fjölmörgum verkefnum (Forseti hringir.) sem hún þarf að halda áfram að vinna með. Í þessu máli gildir það (Forseti hringir.) að finna þarf lausn, það þarf að ljúka því hið allra fyrsta. Í því felast hagsmunir (Forseti hringir.) allra aðila sem að málinu koma. (Gripið fram í: Sammála.)