143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Ingibjörg Óðinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa yfir áhyggjum af stöðu sjúkraflutninga á landsvísu en eins og fram hefur komið eru nær allir samningar við slökkvilið í landinu um sjúkraflutninga lausir. Á höfuðborgarsvæðinu hafa samningaviðræður staðið yfir í rúm tvö ár án þess að tekist hafi að semja með tilheyrandi óvissu fyrir höfuðborgarbúa og ekki síður þá starfsmenn sem um ræðir, þ.e. slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn. Ef þessi staða væri heimfærð upp á fyrirtæki í einkarekstri þar sem sú hætta er sífellt yfirvofandi að leggja ætti niður hluta þjónustunnar og fækka starfsmönnum væri starfsandinn vægast sagt í molum og mjög líklegt að starfsmenn væru farnir að hugsa sér til hreyfings. Að sama skapi gæti það fyrirtæki ekki gert neinar sérstakar áætlanir til framtíðar eða sinnt nauðsynlegri stefnumótun. Málið hefur þannig á sér ýmsar hliðar og vert að hafa í huga að tíminn vinnur ekki með okkur þar.

Öllum ber saman um það að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafi sinnt þessari þjónustu mjög vel og hefur það bæði gott orðspor og ímynd. Það er alls ekki sjálfgefið að sú verði raunin ef þjónustan verður flutt eitthvert annað. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Viljum við rugga bátnum og skapa enn meiri óvissu um þennan málaflokk en þegar er orðið? Getum við réttlætt þann sparnað sem bitnar á þjónustunni? Í mínum huga snýst þetta ekki um peninga heldur mannslíf. Ég hvet til þess að skoðað verði að byggja upp slökkviliðin í landinu þannig að sjúkraflutningar geti orðið lögbundið verkefni þeirra og þannig losað okkur undan þeim sífelldu erjum milli ríkis og sveitarfélaga og einbeitum okkur að þjónustunni en ekki því hvað hún kostar. Leggja þarf áherslu á endurmenntun innan stéttarinnar og endurnýjun tækjakosts og búnaðar svo öryggi íbúa um allt land sé tryggt. Það á ekki að skipta máli hvar fólk er statt á landinu þegar það þarf á sjúkrabíl að halda. Forgangsraða verður í samræmi við það og slá hvergi af kröfum um gæði þjónustunnar. Eyðum þeirri óvissu sem verið hefur um þessa mikilvægu grunnþjónustu og sýnum slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum um leið þá virðingu að skapa ró um störf þeirra.