143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég átti þess kost í haust að hitta að máli margar góðar konur. Þær eru í félagsskap sem heitir Kvenfélagið Hringurinn. Á þessum fundi þar sem þær voru samankomnar hvísluðu þær því að mér að félagið ætti 110 ára afmæli á næsta ári. Afmælisdagurinn var á sunnudag og þær hvísluðu að mér leyndarmáli sem ég hef þagað yfir en er nú ekki lengur leyndarmál, að þær ætluðu að gefa Barnaspítala Landspítalans, sem reyndar er kenndur við Hringinn, Barnaspítali Hringsins, 1 milljón fyrir hvert starfsár. Þær gáfu Barnaspítalanum 110 milljónir.

Ég vil á þessum vettvangi bregða mér í hlutverk barnsins, fæddra og ófæddra barna á Íslandi, og þakka þessum konum fyrir óeigingjarnt starf við uppbyggingu þessa spítala, Barnaspítala Hringsins, sem er reyndar 72 ára. Ef þeirra nyti ekki við er ég ansi hræddur um að heilbrigðismál barna væru með öðrum hætti.

Ég ætla að segja hér til ykkar, elsku Hringskonur: Þakka ykkur fyrir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)