143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

staðgöngumæðrun, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[18:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra alveg sérstaklega fyrir þá málsmeðferð sem við tökum þátt í, sem sagt að hæstv. ráðherra hefur lagt fram munnlega skýrslu, eins og hann kallar sína fyrri skýrslu, en við þingmenn höfum reyndar þegar fengið hana skrifaða í hendur fyrir fram. Ég vil þakka honum alveg sérstaklega fyrir þá málsmeðferð. Eins og hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni þá er staðgöngumæðrun ekkert hversdagslegt viðfangsefni í stjórnmálum.

Það er skemmst frá því að segja að fyrir tveimur árum þegar þingsályktunartillagan var til meðferðar hér þá greiddi ég atkvæði gegn henni. Ég taldi að við værum alls ekki komin á þann stað að við gætum samþykkt að semja skyldi frumvarp um þetta mikla efni. Við vorum fjögur sem lögðum fram breytingartillögu við þingsályktunartillöguna, hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir og ég. Breytingartillagan var þess efnis að starfshópurinn skyldi skoða álitamál um staðgöngumæðrun, sem mér sýnist þessi starfshópur hafa gert, auk þess hefur hópurinn sett fram hugmyndir að því að hann hyggist leggja fyrir lagafrumvarp, en það er það sem þingið samþykkti að yrði gert.

Hæstv. ráðherra segir réttilega: Það er vandasamt ef leyfa ætti staðgöngumæðrun. Í fyrsta lagi er líðan barnsins alltaf í fyrirrúmi. Í öðru lagi er það spurningin um hvort yfirleitt er hægt að uppfylla markmiðið um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Í þriðja lagi er nefnd réttarstaða barnsins ef staðgöngumæðrun fer fram án milligöngu hins opinbera. Í fjórða lagi eru nefndar til siðferðilegar spurningar sem varða velferð og heilsu barnsins, staðgöngumóður og tilvonandi fjölskyldu. Við þurfum að velta fyrir okkur hugsanlegri markaðsvæðingu, misbeitingu vegna ójafnrar efnahagslegrar stöðu og ýmsu sem margir þingmenn hafa farið yfir í máli sínu hér. Í fimmta lagi er nefnt að Ísland yrði fyrst Norðurlandanna til að leyfa staðgöngumæðrun, ef við gengjum svo langt.

Það er það atriði sem ég hef minnstar áhyggjur af í þessu. Samt sem áður væri það nægileg ástæða fyrir mig til að segja nei, við eigum að bíða. Þó að það sé það sem ég hef minnstar áhyggjur af þá mundi það nægja mér til að greiða atkvæði gegn því að við leyfðum hér staðgöngumæðrun.

Starfshópurinn hefur sett fram hvernig hann hyggist semja frumvarp eins og fyrir hann var lagt. Þar koma fram ýmis álitaefni. Við getum t.d. sagt, eins og þar kemur fram: Er ekki réttlátara að allir þeir sem ekki geta eignast börn af einhverjum ástæðum geti þá notað staðgöngumæðrun frekar en bara þær konur sem ekki geta það af því að þær vantar leg eða annað? Það er út af fyrir sig mjög réttmæt spurning og ég er sammála því sem fram kemur hjá hópnum að það væri þá réttara að allir hefðu tækifæri. En það nægir samt ekki. Vissulega þarf að ræða allar þær spurningar sem þar koma fram en í mínum huga er það grundvallaratriði að það verður aldrei hægt að setja nein lög sem mundu verja konu gegn því að verða hugsanlega fyrir þrýstingi, jafnvel frá sínum nánustu, um að ganga með barn (Forseti hringir.) og nota líkama sinn til að ganga með barn sem hún þyrfti að gefa frá sér. Það eru engin lög sem geta varið rétt konunnar í því efni (Forseti hringir.) og þess vegna eigum við ekki að leggja út á þá braut.