143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:38]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Mörður Árnason gerir að umtalsefni mjög mikilvægt mál og það er að við þingmenn höfum nokkurn veginn getað gengið út frá því að það standi ef tilkynnt er að ráðherrar verði hér í óundirbúnum fyrirspurnum og ekki síst þegar sést til ráðherra hér, það eru ekki veikindi eða virðist ekki vera, ekki fjarvera utan bæjar eða annað slíkt heldur sást til ráðherrans á göngunum skömmu áður en þingfundur hófst, þannig að þetta er vont.

Ég held að það mál sem hv. þingmaður nefnir hér að hann hefði viljað ræða og taka upp við hæstv. ráðherra sé þess eðlis, þegar hafin er lögreglurannsókn á embættisfærslum innan ráðuneytisins, að hugsanlega sé mikilvægt að forseti hlutist til um að gefin sé yfirlýsing eða einhvers konar skýrsla um málið af hálfu ráðherra hér í þinginu eða jafnvel forsætisráðherra sem fer fyrir þessari ríkisstjórn.