143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði heilbrigðisþjónustu.

44. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Málið sem ég mæli fyrir er af sömu rótum runnið og það sem við ræddum áðan. Hér er um að ræða tillögu til ályktunar Alþingis í samræmi við ályktun ársfundar Vestnorræna ráðsins í Narsarsuaq á síðasta ári. Það sem greinir á milli er að í fyrra málinu var talað um menntun heilbrigðisstarfsmanna en hér er verið að víkja að heilbrigðisþjónustu, þ.e. veitingu heilbrigðisþjónustunnar.

Í tillögutextann er þess getið að með tillögunni sé lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að gera samninga við stjórnvöld Færeyja og Grænlands um aukið samstarf á sviði heilbrigðisþjónustu, einkum hvað varðar skurðlækningar. Sagt er að sérhæfing hvers lands á mismunandi sviðum skurðlækninga skuli nýtt eftir því sem við verði komið. Skorað er á heilbrigðisráðherra að útvíkka slíkt samstarf til annarra sviða og ná samkomulagi um þátttöku allra landanna þannig að þau geti bæði verið veitendur og þiggjendur þjónustunnar.

Eins og í tilviki fyrra málsins er um að ræða töluvert samstarf milli þessara þriggja landa á sviði heilbrigðisþjónustu. Það á sér langa sögu og fyrir hendi eru ákveðnir samningar og samráð á þeim sviðum. Það er ekki fullljóst hvort eða hvaða kostnaður mun koma til vegna þessa máls en vísað er til þess það muni skýrast þegar ráðherrar landanna fara að vinna í því. Við umræður í utanríkisnefnd var málinu mætt af mikilli jákvæðni og ekki um það neinn ágreiningur.

Eins og í fyrri tillögu er vilji til þess að efla samstarf landanna þriggja og nýta samhæfingu og samráð og samvinnu þar sem hún á við og getur skilað árangri, bæði í bættri þjónustu og aukinni hagkvæmni.

Utanríkisnefnd leggur einróma til að málið verði samþykkt.