143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

217. mál
[16:38]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Varðandi gerð þessa frumvarps studdist ég við frumvarp sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir lagði fram. Hún var forseti Alþingis og sat með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur í ríkisstjórn fyrir um ári, innan við ári síðan. Það frumvarp var unnið af skrifstofu Alþingis og ég naut aðstoðar þeirra eins og annarra. Það er fjallað um þær spurningar sem hv. þingmaður spyr á mjög skýran og greinargóðan hátt. Listað er skref fyrir skref hvernig eigi að fara með framkvæmd skipulagsmála á Reykjavíkurflugvelli. Ef það er eitthvað óskýrt eins og gengur má jú styðjast við greinargerðina. Svo er þetta aftur eins og gengur að Alþingi tekur mál til umfjöllunar, fær umsagnir og lagar agnúa ef einhverjir eru. Ég skal ekki vera það stór með mig að fullyrða að engir agnúar séu á þessu frumvarpi, en það er mjög skýrt í mínum huga hvernig á að fara með framkvæmd skipulagsmála og hvernig þessu er skipt á milli höfuðborgar og Alþingis.

Að leiðin sé umdeilanleg. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir gerir sér grein fyrir því vegna þess að hv. þm. Mörður Árnason spurði mig um frumvarp sem þingmaðurinn lagði fram þar sem skipulagsvald sveitarfélaga var takmarkað að einhverju leyti og er núna í meðförum í umhverfis- og samgöngunefnd.

Af hverju tala ég um að þjóðin öll eigi að hafa eitthvað um þetta að segja? Jú, vegna þess að Reykjavík (Forseti hringir.) er höfuðborg allra landsmanna. Hún gegnir vissu hlutverki (Forseti hringir.) sem slík og hún nýtur margs sem slík. Þess vegna (Forseti hringir.) hlýtur flugvöllurinn að vera eitt mikilvægasta samgöngumannvirki allra landsmanna.