143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

umferðarlög.

284. mál
[17:11]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mér hefði líklegast dugað að fara í andsvar.

Hér hefur verið ágætis umræða um þessi mál og verið komið inn á svolítið af því sem ég hafði hugsað mér að ræða. Mig langar að byrja á því að varpa fram spurningu. Hér var talað um endurmenntun þeirra sem sjá um farþegaflutninga til dæmis í ferðaþjónustu. Ég velti fyrir mér eftirlitinu í framhaldinu. Það hefur aukist töluvert að erlendir bílstjórar komi til landsins, þ.e. það koma bæði rúta og bílstjóri. Hvernig getum við fylgt því eftir að þar séu öll tilskilin réttindi, á sambærilegan hátt? Það hlýtur að þurfa að vera eins og greint er frá hérna.

Eins og ég sagði hafa nokkur af þeim málum sem ég hafði hugsað mér að ræða verið rædd, t.d. léttu bifhjólin. Ég gat ekki annað en brosað þegar var talað um barn undir 150 sentimetrum af því að sú sem hér stendur á ekki marga til viðbótar, ég rétt slepp líklega. Auðvitað þurfa alltaf að vera einhver viðmið en mér finnst þetta svolítið hátt.

Mig langar að spyrja um lengingu á tímanum sem ráðherra kom aðeins inn á. Við erum kannski með krakka sem eiga slík tæki og nota mikið og hafa átt í eitt, tvö ár og hvað varðar gildistímann er gott að heyra að ráðherra telur að framkvæmanlegt sé að lengja aðlögunartímann. Ég er með skýrslu um framkvæmd umferðaröryggisáætlunar, ársskýrslu 2012. Það eru færð fyrir því rök í þessum lögum að þau eigi að draga úr slysum og ég spyr hvort það liggi einhvers staðar fyrir. Það kemur alla vega ekkert slíkt fram í ársskýrslunni 2012 og er ekkert um það fjallað. Er til einhver tölfræði varðandi litlu og léttu hjólin? Ég tek líka undir af því að mörg reiðhjólin fara náttúrlega jafnvel hraðar og sumir sem hlaupa hratt fara hraðar en léttu hjólin.

Það er líka spurning hver rökin eru fyrir því að vera með öxlana hérna. Það er talað um tvíhjóla ökutæki á einum öxli og hjólastól o.s.frv., en af hverju? Nú eru rafvespurnar, sem eru svipað þungar tveggja öxla. Af hverju þessi mismunur? Það má einnig spyrja hvort ástæða er til að hækka upp í 35 í staðinn fyrir að hafa það 25.

Eins og hér hefur komið fram og ráðherra sagði er þetta ekki eins í ríkjunum í kringum okkur. Þegar talað er um að Evrópureglur séu notaðar til að skilgreina létt bifhjól þá kemur fram að þær eru ekki eins, hvorki í Noregi, Danmörku né annars staðar þar sem þau eru ekki skráningarskyld. Af hverju völdum við að fara dönsku leiðina fremur en einhverja aðra? Eins og nefnt var er þetta ekki samkvæmt Evrópustaðli

Mig langar í lokin að velta því upp hvort það ættu að vera aldurstakmarkanir eða hvað eigi að vera frekar en öxulstærð eða hraði. Í þeirri ágætu skýrslu sem ég nefndi er mikið lagt upp úr að uppfræða unga fólkið. Sigurður Þór Elíasson, sem er umferðarfulltrúi í Grundarskóla, segir á bls. 87 í þessu hefti að hann hafi tekið þátt í námsefnisgerð sem tengist kostnaði samfélagsins vegna umferðarslysa. Hann talar um spennandi samvinnu nemenda, kennara og sérfræðinga þar sem nemendur eiga að afla sér upplýsinga frá tryggingafélögum, reyna að leggja mat á kostnað samfélagsins vegna umferðarslysa o.s.frv. Hann er því svolítið að vísa í að við eigum að taka upp meiri fræðslu í grunnskólunum vegna umferðarslysa meðal annars. Þá hefði maður talið, af því að þeim hefur fjölgað mikið, bæði á litlum stöðum og þeim stærri, að heppilegt gæti verið eða framkvæmanlegt að auka umferðarfræðsluna fremur en að setja kílómetra á klukkustund sem viðmið eða aldursviðmið, nema hvort tveggja sé, en alla vega að ráðuneytið telji ástæðu til að efla fræðslu ungmenna sem nýta slík farartæki hvað mest.

Ég er alveg á því að það þarf að setja um þetta lög og reglur og halda utan um þetta og allt það. En þetta er orðið svolítið þröngt, finnst manni, þegar svona lítil rafvespa eða reiðhjól með einhverju hjálpartæki þarf að lúta stífum reglum.

Við erum oft og ört að setja lög og reglur og þá er það alltaf eftirfylgnin. Er eftirfylgni með þessu framkvæmanleg? Við vitum hvernig staða löggæslunnar hefur verið þótt verið sé að reyna að bæta þar úr. Mér finnst það líka umhugsunarefni.

Stóra spurningin mín í málinu finnst mér vera hvort fyrir liggur tíðni umferðarslysa vegna þessara hjóla og tækja sem þarna falla undir lítil. Svo eru það erlendu rútubílstjórarnir.