143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

markaðar tekjur ríkissjóðs.

306. mál
[17:04]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Loksins, loksins, mundi einhver segja sem hefur tekið þátt í fjárlagavinnu á Alþingi á undanförnum árum. Ég veit að margir þingmenn hafa komið upp í þennan ræðustól í gegnum tíðina og talað um nauðsyn þess að breyta löggjöf okkar á þann hátt sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til hér. Ég þakka þeim ágætu þingmönnum sem starfa í ágætum meiri hluta fjárlaganefndar fyrir þetta frumkvæði. Jafnframt langar mig að lýsa undrun minni á því að frumvarpið sé ekki flutt af nefndinni í heild vegna þess að það var það sem ég hélt að mundi líta dagsins ljós. Það er í takt við þá umræðu sem hefur verið í þinginu í gegnum árin og við þann anda sem ég upplifði í fjárlaganefnd þegar ég átti sæti þar sem varamaður í haust. Ég vonast þá til að stjórnarandstaðan standi við það eftir að hafa farið yfir málið að styðja þessar breytingar. Ég tel að þetta sé grundvallaratriði sem við eigum öll að geta verið sammála um, og taldi það vera.

Það er auðvitað mikilvægt þegar við höldum utan um budduna, þ.e. skattfé almennings, að við höldum rétt á spilunum, áttum okkur á því sem er að gerast og vinnum í takt við löggjöfina og stjórnarskrána. Það er einmitt þannig að í 41. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Það er ágætlega gerð grein fyrir því í greinargerðinni með frumvarpinu að það er akkúrat þetta ákvæði stjórnarskrárinnar sem er til skoðunar þegar þessar breytingar eru lagðar til, fjárveitingavaldið á að vera hjá Alþingi og er hjá Alþingi og það á ekki að vera heimilt að greiða gjöld úr ríkissjóði nema getið sé um það í fjárlögum. Þess vegna er þetta rétt skref og verður mjög til bóta.

Til þess að hafa betri yfirsýn yfir fjárlagavinnuna og utanumhald um hvernig okkur gengur að vinna eftir fjárlögunum er nauðsynlegt að þeir sem eiga að hafa fjárveitingavaldið hafi það í raun en það sé ekki ákvarðað með sérlögum hverju sinni hvernig stórum hluta af skattfé almennings og þjónustugjöldum er varið. Það kemur fram í greinargerðinni að samkvæmt skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu 17% af ríkisútgjöldum fjármögnuð með sértekjum eða mörkuðum tekjum. Það er næsthæsta hlutfallið meðal þeirra ríkja sem voru í könnun sjóðsins og kemur fram að það sé aðeins Írland sem taki fram úr okkur þar.

Þegar við sinnum okkar eigin bókhaldi og heimilisins viljum við hafa yfirsýn yfir reksturinn. Við viljum hafa hlutina tiltölulega einfalda og ráða þeim ákvörðunum sem við tökum, taka þær sjálf en ekki láta einhvern annan marka allar línur fyrir okkur. Það er í rauninni nákvæmlega sami hluturinn á ferðinni hérna.

Ef við förum aðeins í skilgreininguna á því hvað er átt við með mörkuðum tekjum — ég átta mig alveg á því að það hoppa ekki allir upp úr sætum sínum þegar þeir heyra um þetta frumvarp vegna þess að „markaðar tekjur“ er ekki hugtak sem við tölum um á hverjum degi en þetta er mjög spennandi, ég er að reyna að sannfæra ykkur um það, (Gripið fram í.)þetta er eitt mest spennandi mál sem hefur komið til umræðu í þinginu — eru þær skatttekjur sem er aflað samkvæmt sérlögum þar sem kveðið er á um að þeim skuli varið til að fjármagna útgjöld tiltekinna málaflokka, stofnana eða verkefna. Þannig er skilgreiningin. Í stað þess að mörkuðu tekjurnar renni beint inn til stofnunarinnar tökum við ákvörðun um það hér, verði frumvarpið að veruleika, að þær renni beint í ríkissjóð. Síðan er það fjárlaganefnd sem setur fjárlögin og ákveður með þeim hver fær hvað.

Ef við höfum kjark, sem ég trúi, til þess að breyta þessu fyrirkomulagi kemst fjárstjórnarvaldið þangað sem það á að vera. Þetta er rétt skref, þetta er sjálfsagt skref að taka og það ætti að vera um það pólitísk samstaða.

Það er líka mjög vel gerð grein fyrir því í greinargerðinni hver ávinningurinn er af breytingunum. Ég hvet alla sem hafa áhuga á því — sem hafa áhuga á því núna — að lesa meira um markaðar tekjur og kíkja á bls. 13 í greinargerðinni. Þar kemur fram að ávinninginn af breytingunum megi draga saman í þau atriði að ákvarðanir um ráðstöfun á ríkistekjum verði einungis teknar í fjárlögum og fjáraukalögum og eftiráheimildir í lokafjárlögum leggist af. Hingað til hefur verið afskaplega tímafrekt og mikil pappírsvinna að reyna að koma lokafjárlögunum saman vegna þess að þetta er alltaf á huldu.

Síðan verði óvissu eytt um hverjar séu fjárheimildir stofnana á fjárlagaárinu. Núna er þetta þannig að stór hluti margra stofnanna ræðst af því hvað kemur inn í mörkuðum tekjum. Menn vita ekki fyrir fram þegar þeir gera rekstraráætlun fyrir árið hvað það er sem þeir hafa úr að spila. Það er stundum farið yfir, það er örugglega farið yfir í mörgum tilvikum eins og kemur fram í greinargerðinni.

Síðan er það atriðið að útgjaldavöxtur í gegnum sjálfvirkt streymi ríkistekna til stofnana leggst af. Þetta einfaldar fjárlagagerðina, eins og ég kom inn á, og reikningsskil stofnana, gerð ríkisreiknings og lokafjárlaga. Þetta styrkir og einfaldar fjármálastjórn ríkisstofnana og ríkisins í heild. Er það ekki stóra markmiðið okkar allra? Ríkissjóður hefur verið rekinn með halla. Við ætlum okkur að ná tökum á því. Við lögðum fram og samþykktum hallalaus fjárlög. Við verðum þess vegna að halda í taumana og það er augljóst að þetta er sterkt vopn í þá áttina. Svo styður þetta við útgjaldamarkmið rammafjárlagagerðar og við fjárveitinga- og fjárstjórnarvald Alþingis.

Frú forseti. Ég get ekki annað en fagnað frumvarpinu. Ég hvet hv. fjárlaganefnd til þess að vinna það hratt og vel.

Það er eiginlega ekki annað hægt en að minnast á viðbrögð ráðuneytanna við áætlunum nefndarinnar sem koma fram í greinargerðinni á bls. 16. Þar segir að frumvarpið hafi verið samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að beiðni nefndarinnar. Nefndin fór svo í það að kynna ráðuneytunum áformin en í mörgum tilvikum lögðust ráðuneytin gegn frumvarpinu. Það er mjög athyglivert.

Það segir hér að athugasemdirnar sem komu frá ráðuneytunum, og nefndin þarf þá að fara yfir, lúti í fyrsta lagi að því að oft séu tengsl á milli kostnaðar stofnunar og tekjuöflunar. Já, það er örugglega svo í einhverjum tilvikum. Í öðru lagi að aukin tekjuöflun markaðra tekna eða rekstrartekna kalli jafnframt á aukin útgjöld. Ég er ekki viss um, ef við förum yfir söguna, að þetta sé staðreynd í meiri hluta tilfella. Auðvitað er það svo í einhverjum tilfellum en í stjórnsýslufræðunum er stundum talað um hagkvæmni stærðarinnar, að meira sé alltaf hagkvæmara og miðað við þau fræði held ég að þetta geti ekki verið rétt í öllum tilvikum. Í þriðja lagi er vísað til þess að bent hafi verið á að mörkun tekna byggist á samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins eða samræmt evrópskt regluverk.

Nefndin mun örugglega fara yfir þetta, sérstaklega varðandi samræmda evrópska regluverkið, en það stingur í stúf að við erum með miklu hærri prósentu í mörkuðum tekjum en aðrar þjóðir. Við erum þá eitthvað samræmdari með okkar samræmda evrópska regluverk en aðrar evrópskar þjóðir.

Svo hefur verið bent á að þetta sé áralöng hefð og það ríki sátt um núverandi fyrirkomulag. Ég er ekki sátt við núverandi fyrirkomulag. Ég sé að meiri hluti fjárlaganefndar er ekki sáttur við núverandi fyrirkomulag. Ég hélt að minni hluti fjárlaganefndar væri líka ósáttur við núverandi fyrirkomulag, og er það kannski en á öðrum forsendum. Ég tek alla vega ekki undir þau sjónarmið að það megi ekki breyta hlutunum af því að þeir hafi alltaf verið á einhvern hátt. Við eigum að leyfa okkur það, þegar við erum að reyna að ná tökum á rekstri ríkissjóðs, að hugsa hlutina upp á nýtt og það er það sem þetta frumvarp ber með sér. Til hamingju með það.