143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

fjármálafyrirtæki.

274. mál
[14:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég stend að þessu nefndaráliti eins og þegar hefur komið fram hjá framsögumanni og er sammála því að skynsamlegast sé að setja aftur inn í lög heimildarákvæði til Fjármálaeftirlitsins þannig að við stöndum að því leyti til með óbreytt lagaumhverfi á meðan beðið er eftir niðurstöðum í þeirri vinnu sem fór af stað á árunum 2011, 2012 og enn sér ekki fyrir endann á. Það er hins vegar brýnt að mál varðandi framtíðarlagaumhverfið fari að skýrast og möguleg slit eða skil á fjármálafyrirtækjum ef til slíks kemur því að um nátengdan hlut er að ræða, að Fjármálaeftirlitið hafi þessar víðtæku valdheimildir til að grípa inn í ef á þarf að halda. Þar undir, eftir atvikum, gæti komið spurningin um aðskilnað eða a.m.k. frekari aðskilnað viðskiptabanka og fjármálastarfsemi en enn þá er byggt á í lögum hér. Það er hreyfing á þeim málum í flestum löndum í kringum okkur og að sjálfsögðu þurfum við að fylgjast með framvindunni þar, ekki síst innan Evrópu í ljósi aðildar okkar að EES-samningnum og þess að við mundum væntanlega þurfa að taka mið af þeim niðurstöðum sem þar kunna að verða.

Reyndar er ekki síður áhugavert að fylgjast með umræðum um þessi mál í Bandaríkjunum. Fyrir Bandaríkjaþingi liggja núna a.m.k. þrjár tillögur eða þrenns konar þingmál sem tengjast frekari aðskilnaði viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi þar í landi og ýmsum fleiri ráðstöfunum til að draga úr áhættu í fjármálakerfinu. Langæskilegast væri auðvitað að fá inn á borð Alþingis niðurstöður í þessum málum í heild sinni, þ.e. afrakstur þess nefndastarfs sem í gangi hefur verið núna í eitt og hálft ár, bráðum tvö ár og lýtur að löggjöf um fjármálamarkaðinn í heild og hugmyndinni um rammalöggjöf um fjármálastöðugleika sem yrði í raun og veru einhvers konar yfirlöggjöf á sviði fjármálamarkaðar í landinu. Sömuleiðis þær frekari breytingar eða úrbætur sem við viljum gera á löggjöf um fjármálamarkaðinn til framtíðar litið til að ljúka því verki sem hófst með hruninu. Segja má að neyðarlögin sem slík hafi verið fyrsta aðgerðin í þeim efnum að leggja af stað inn í nýja framtíð með nýtt fjármálakerfi á Íslandi enda var það þá að mestu leyti hrunið. Það sem eftir stóð hrundi í viðbót að mestu leyti á næsta hálfa til einu og hálfa árinu eftir október 2008. Það lætur nærri að um 98% af íslenska fjármálakerfinu hafi hrunið þegar upp var staðið og munar nú um minna og ekki nema eðlilegt að farið sé rækilega yfir löggjöf í framhaldinu.

Að sjálfsögðu voru gerðar mikilvægar breytingar strax á árunum 2009 og 2010 og eitthvað hefur bæst við en ég held að tilfinning flestra sem til þekkja sé að við séum ekki komin á endastöð í þessum efnum og vantar mikið upp á. Maður vonar svo sannarlega að á þetta bráðabirgðaákvæði komi ekki til með að reyna og ber að taka fram að það er ekki afstaða nefndarinnar að brýnt sé að drífa þetta inn í lög núna af einhverjum sérstökum ástæðum sem menn sjá fyrir sér. Vonandi reynir alls ekkert á gildi þessara laga ef af verður út árið sem þeim er þó ætlað að standa, reyndar út árið 2015 eins og hér er lagt til. Þetta ber að skoðast í því ljósi sem fram hefur komið um frekari vinnu á þessu sviði.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta meira en tek undir með framsögumanni og nefndin varð sammála um að það er svolítið óheppilegt að þetta skyldi detta út úr lögum og þurfa að koma inn á nýjan leik, en það hafði svo sem ekkert gerst frá 1. janúar og gerist vonandi ekki á næstu dögum. Ef Alþingi lýkur afgreiðslu málsins innan skamms tíma ætti það ekki að koma að sök. Þá gildir óbreytt lagaumhverfi að þessu leyti áfram út þetta ár og jafnvel hið næsta ef ekki verður gripið inn í með frekari lagasetningu.

Mér eru það nokkur vonbrigði, ég verð að segja eins og er, að starfinu skuli hafa miðað þetta hægt áfram. Ég skil að vísu þá röksemd sem er hér flutt að að einhverju leyti vilji menn sjá til lands varðandi Evrópureglurnar. En hvað varðar rammalöggjöf um fjármálastöðugleika og nýtt yfirstjórnkerfi í þeim efnum þar sem ábyrgðarhlutverk hvers og eins yrði gert skýrt, og einnig hvernig menn tækjust á við tilfallandi aðstæður þegar upp kæmi áhætta eða óvissa um fjármálastöðu í landinu, er það ekki tengt því. Ég held að enginn vafi sé á því að þar getur Ísland sett sér sitt fyrirkomulag, sitt stjórnskipulag. Þess vegna er í öllu falli brýnt að menn fari að koma því á koppinn.

Reyndar var með lagabreytingu í sumar hnykkt á hlutverki Seðlabankans um að gæta fjármálastöðugleika í landinu og fært sérstaklega inn í 4. gr. laga um Seðlabanka Íslands að eitt af undirmarkmiðum eða hlutverkum hans skuli vera að gæta að fjármálastöðugleika. Það sem menn hafa verið með undir í þessari vinnu er að sjálfsögðu ekki fullnægjandi heldur hitt að við tökum afstöðu til þess og leiðum til lykta fyrirkomulagið sem við viljum sjá á þessum málum til framtíðar, hvort hér kemur fjármálastöðugleikaráð með mjög sterkar lagaheimildir til að kalla til sín upplýsingar og hafa yfirsýn yfir markaðinn í heild sinni og meta áhættu. Í ljósi reynslunnar hallast ég að því að það eigi að gera til að byrgja brunninn og hafa eins vel um þessa hluti búið og nokkur kostur er til framtíðar litið.

Það er mikilvægt að við sofnum ekki á verðinum. Þótt heldur sé jafnt og þétt að rofa til hjá okkur eftir hrunið megum við ekki láta líða of langan tíma frá því á meðan sú reynsla er okkur fersk í minni og vonandi þeir lærdómar. Þá eigum við að nota til að gera tilhlýðilegar ráðstafanir í lögum og regluverki til að gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að fyrirbyggja að sambærilegir hlutir geti gerst aftur. Þar á meðal er mikilvægt að niðurstaða til framtíðar liggi fyrir um það hvernig með er farið ef kemur til slita eða skila á fjármálafyrirtækjum sem eru í vanda, hvort við höfum til frambúðar þá reglu sem kom inn með neyðarlögunum að innstæður séu forgangskröfur í bú við skipti og með hvaða öðrum ráðstöfunum almenn viðskiptabankastarfsemi er tryggð eins og nokkur kostur er og m.a. botnað af hálfu Alþingis hvort menn vilja fara í frekari eða fullan aðskilnað á hefðbundinni viðskiptabankastarfsemi annars vegar og áhættusamari þáttum sem liggja meira inn á sviði fjárfestingarbankastarfsemi hins vegar. Undir það er ræðumaður mjög hallur en ég viðurkenni auðvitað að það mál þarf að útfæra á vandaðan hátt.

Allt mætti þetta ræða í rækilegra samhengi, virðulegur forseti, svo ekki væri minnst á umræðu sem orðið hefur að undanförnu um eina mikilvægustu lykilstofnun þessa kerfis sem er óvart Seðlabanki Íslands. Mætti ýmislegt um það segja sem um hann er sagt og skrifað þessa dagana en ég held að ég geymi mér það til betri tíma ef á þarf að halda að tjá mig um það.