143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í fjárlögum fyrir árið 2014 var gerð leiðrétting á framlögum til bótaþega og dregið úr þeim skerðingum sem höfðu átt sér stað í tíð síðustu ríkisstjórnar. Framlög til elli- og örorkulífeyrisþega og til félagslegrar aðstoðar jukust um 5 milljarða. Þá voru lagðir 3,5 milljarðar í bótakerfið til viðbótar til að standa straum af auknum útgjöldum vegna fjölgunar bótaþega og vegna verðbóta.

Útgjaldaaukning í ríkisrekstri frá árinu 2013 er því samanlagt 8,5 milljarðar, 8.500 milljónir, vegna þessa málaflokks. Það þýðir að bótaþegar ættu að hafa séð um það bil 15–20% hækkun á mánaðarlegum greiðslum til sín frá áramótum.

Enginn er ofhaldinn af sínum bótum og betur má ef duga skal. Það ætti samt að muna um 10–12 þús. kr. hækkun mánaðarlega en því miður ést samt þessi hækkun í mörgum tilvikum strax upp vegna ýmissa verðhækkana sem orðið hafa, svo sem hækkunar á húsaleigu, gjöldum og neysluvöru.

Sú breyting sem varð á greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði þann 1. maí í fyrra hefur líka reynst mörgum bótaþegum afar þungur baggi. Til dæmis hefur þátttökukostnaður sykursjúkra aukist úr 0 kr. í 70 þús. kr. á ári fyrir almennan sjúkling en úr 0 kr. í 46 þús. kr. á ári fyrir öryrkja.

Vitað er að bótasvik eiga sér stað hér á landi. Það er ekki einungis lögbrot, það kemur líka mjög illa niður á þeim sem sannarlega eiga rétt á bótum. Það fjármagn sem er til ráðstöfunar til bótaþega rennur því ekki óskert til þeirra sem eru réttmætir bótaþegar. Bótasvik skerða þeirra sneið af sameiginlegu kökunni. Takist okkur að vinna á bótasvikum ætti hagur hinna að batna.