143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:20]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu og tek undir það með honum að ég held að þessi skýrsla sé í marga staði mjög góð. Í henni er farið mjög vel yfir ýmis álitamál sem snúa að Evrópusambandsumsókninni. — Virðulegi forseti, gæti ég fengið þögn í salinn?

(Forseti (SJS): Ekki samtal.)

Af því hv. þingmaður var að fjalla hér um sjávarútvegsmál er dálítið sérstakt að hlusta á það að hv. þingmaður talar nú um að hægt sé að fá varanlegar sérlausnir, sem eitt sinn voru kallaðar varanlegar undanþágur, að skýrslan sanni að hv. þingmaður hafi rétt fyrir sér hvað það snertir.

Mig langar að drepa niður í þessa skýrslu, með leyfi virðulegs forseta, þegar kemur að sjávarútvegsmálum vegna þess að skýrslan er ein stór staðfesting á því að ekki er mögulegt að fá það sem hv. þingmaður kallar varanlegar sérlausnir.

Í skýrslunni segir meðal annars:

„Stofnanir Evrópusambandsins hafa vald til þess að setja afleidda löggjöf í fiskimálum sambandsins í mjög víðtækum mæli.“

Annars staðar segir:

„Þá fer Evrópusambandið eitt með óskiptar valdheimildir yfir varðveislu auðlinda í sameiginlegu fiskveiðistefnu sambandsins.“

Það segir líka:

„Meginreglan er að fiskveiðiskip sambandsins skulu hafa jafnan aðgang að hafsvæðum og auðlindum í sambandinu.“

Það ætti þá við um íslenska lögsögu. Það segir líka:

„… nýjum aðildarríkjum hefur ekki tekist að fá varanlegar undanþágur frá hinni sameiginlegu stefnu Evrópusambandsins í fiskimálum þrátt fyrir tilraunir í þá átt.“

Og einnig:

„Þá er ljóst að samningsumboð við lönd utan Evrópusambandsins, t.d. vegna veiða úr deili- og flökkustofnum, verður á hendi Evrópusambandsins en ekki einstakra ríkja.“

Svo segir einnig:

„Þá er ljóst að ekki væri hægt að fá undanþágu frá ákvæðinu um að heildarafli í helstu veiðum skuli ákvarðaður formlega á vettvangi Evrópusambandsins, þrátt fyrir að lögsaga Íslands yrði skilgreind sem sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði.“

Þetta eru nokkuð skýrar línur. Mig langar að spyrja hv. þingmann og formann Samfylkingarinnar af hverju svona hagsmunamat og svona skýrsla (Forseti hringir.) eins og hér liggur til grundvallar (Forseti hringir.) var ekki unnin áður en haldið (Forseti hringir.) var af stað í þessa vegferð? Eru þetta ný sannindi (Forseti hringir.) fyrir hv. þingmanni?