143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu. Hún nálgaðist viðfangsefnið á talsvert annan máta en formaður Samfylkingar, sem talaði á undan henni, og talaði um stóru myndina og hvað ESB er, við þyrftum að átta okkur á því. Við þyrftum jafnframt að átta okkur á, og þingmaðurinn taldi að við mundum geta gert það á grundvelli skýrslunnar, hvert ESB væri að þróast og það væri mikilvægt fyrir þingmenn á Alþingi að átta sig á því þegar fjallað væri um þessi mál.

En hvers vegna var þetta ekki gert áður en sótt var um aðild að Evrópusambandinu? Voru þingmenn á þeim tíma með nægilega miklar upplýsingar til að taka ákvörðun um að fara í þetta ferli? Ég spyr vegna þess að ég tel mikilvægt eftir að hafa eytt peningum og tíma í að gera þessa skýrslu að við drögum lærdóm af fortíðinni. Við höfum áður fengist við stórar skýrslur hérna í þinginu og leitast við að draga lærdóm af því sem við höfum verið að gera. Minn lærdómur er sá að menn fóru af stað (Forseti hringir.) óundirbúnir.