143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir kynninguna á þessari skýrslu og það er mikilvægt hún sé loks komin fram. Þegar stjórnarsáttmálinn var gerður á sínum tíma var gengið út frá því að skýrsla af þessum toga yrði tekin saman og lögð fyrir þingið. Það yrði þá byrjað á því að hætta frekari viðræðum við Evrópusambandið og í kjölfar þess að skýrslan hefði verið lögð fram hér og rædd yrði tekin ákvörðun um næstu skref.

Öllum er ljóst að báðir stjórnarflokkarnir eru andvígir inngöngu í Evrópusambandið og í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að viðræðum við Evrópusambandið verði ekki haldið áfram án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú er þessi skýrsla komin fram. Auðvitað hefði verið heppilegra að fá hana enn fyrr en raun ber vitni en það er mikilvægt að hún er komin fram.

Í þessari skýrslu, sem ég fagna að er vel tekið hér í þinginu, er meðal annars rætt um stöðu og horfur í efnahagsmálum Evrópusambandsins sem er liður í Evrópuumræðunni á Íslandi sem ég hef saknað að kæmist ekki ofar í umræðunni. Ég ætla hins vegar, á þeim stutta tíma sem ég hef hér, ekki að fara mjög djúpt í þann kafla. Rætt er um stöðu umsóknar Íslands að Evrópusambandinu og það verður að segjast eins og er að þegar við rifjum upp þær áherslur sem fylgdu umsókn Íslands, og þá er ég einkum að vísa til þess að sérstök áhersla var lögð á þátt landbúnaðar í íslensku samfélagi og efnahagslegt mikilvægi sjávarútvegs, þá er það dapurlegt að þegar viðræður voru stöðvaðar, eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í fyrravor, höfðu sex kaflar ekki enn verið opnaðir þó að samningsafstaða í tveimur þeirra hefði legið fyrir, þ.e. í kaflanum um matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði og í kaflanum um dóms- og innanríkismál. En samningsafstaða lá ekki fyrir í fjórum köflum þar af í hvorugum þeirra kafla sem Ísland hafði lagt sérstaka áherslu á hvað helstu hagsmuni landsins varðaði, sem sagt landbúnaðarkaflann og sjávarútvegskaflann. Ekki er hægt að segja annað en umræðan um Evrópusambandsaðild eða möguleika á henni hafi meira eða minna snúist um möguleika á undanþágu hvað þessa kafla snertir. Þó hafði liðið heilt kjörtímabil frá því að þingið tók ákvörðun um umsókn.

Afstaða lá heldur ekki fyrir í kaflanum um frjálsa fjármagnsflutninga eða kafla um staðfesturétt og þjónustufrelsi. Því er ekki annað hægt en taka undir það sem segir í skýrslunni um að óheppilegt sé að það sé staðan þegar meta á stöðu viðræðnanna að ekki skyldi auðnast að opna og leggja fram samningsafstöðu varðandi fyrrnefnda fjóra kafla, ekki síst þar sem ljóst var að reyna mundi á ýmis mikilvæg álitamál hvað þá varðar. Við sjáum það líka hér í dag að enn er tekist á um sömu hluti og við gerðum fyrir fjórum árum og gerðum oft á síðasta kjörtímabili hvað varðar möguleika á einhvers konar samkomulagi um atriði sem þar koma við sögu.

En það er þó gott að við höfum þessa skýrslu hér fyrir framan okkur sem tekur sérstaklega á möguleikunum fyrir sérlausnir sem alltaf virðast vera kjarnaatriði í allri umræðu í þinginu. Hér hefur verið vísað í nýlegar blaðagreinar sem skrifaðar hafa verið en mér finnst ágætt að halda mig við kaflann um þessi atriði vegna þess að hann er nokkuð skýr. Mér finnst jafnframt, þrátt fyrir að hann sé skýr, að enn gæti ákveðins misskilnings hér í umræðunni um eðli undanþága sem fengist hafa og hvernig þær eru tilkomnar í sögulegu samhengi. Ég skal fara aðeins yfir það hér á eftir.

Í fyrsta lagi eru dæmi um að samið hafi verið sérstaklega við inngöngu einstakra aðildarríkja á einstökum málefnasviðum en eins og rakið er í kafla 11.2 í skýrslunni er mikilvægt að hafa í huga hvernig það hefur borið að. Tökum sem dæmi undanþágur sem Danir náðu samkomulagi um á sínum tíma. Hvernig ber það að hjá Dönum þegar það gerist? Það er þá þannig að verið er að útvíkka samstarf Evrópuríkjanna með Maastricht-sáttmálanum. Við þær aðstæður á hvert og eitt aðildarríki í sjálfu sér neitunarvald, getur hafnað því að stækkunin nái fram að ganga sem setur allt stækkunarferlið í algert uppnám. Við þær aðstæður ná Danir, þegar Maastricht-sáttmálinn var samþykktur, einnig undanþágu sem oft er vísað til sem fordæmis fyrir því að hægt sé að ná einhverju sambærilegu í aðildarviðræðum Íslands. Ég vil meina að þetta sé ekki sambærilegt dæmi.

Sama gildir um evruna sem sumir vísa til: Sjáið þið bara, sumir þurftu ekki að taka upp evruna. Þar var nákvæmlega það sama upp á teningnum. Evrópusambandið var í stækkunarferli. Einstök ríki höfðu einfaldlega neitunarvald, gátu hafnað því eða settu fyrirvara þegar samstarfið var víkkað út með nýjum sáttmála um að þau mundu ekki taka þátt í viðkomandi mynt eða samstarfi á öðrum sviðum. Það verður að gera greinarmun á þess háttar undanþágum, hvernig þær eru til komnar, og síðan hinu hver staða umsóknarríkis er gagnvart sambandslöggjöfinni eins og hún birtist umsóknarríkinu á viðræðutímanum.

Ég vil líka taka fram að sumar þeirra undanþága sem eru nefndar í umræðunni, samanber t.d. reglurnar um ríkisstuðning við landbúnað norðan 62° eða undanþágurnar, sem oft er vísað til í tilviki Möltu, eru byggðar á afleiddri löggjöf. Malta reisir þær sérreglur sem þeir hafa um fiskveiðar á afleiddri löggjöf sambandsins. Hvað þýðir þetta í praxís? Þetta þýðir að sambandið getur síðar breytt viðkomandi löggjöf með meirihlutaákvörðun. Það getur gerst. Í tilviki ríkisstuðnings við landbúnað er líka um að ræða reglur sem ekki eru beinn hluti stofnsáttmálans heldur þarf framkvæmdastjórnin að jafnaði að heimila ríkisstyrki, hvort styrkja megi þetta eða hitt landbúnaðarhérað og að hvaða marki og allt er þetta sambandslöggjöf. Hvergi í aðildarsamningum er sagt að Ísland, Finnland eða Noregur, eitthvað af þessum ríkjum, muni um aldur og ævi halda ríkisstyrkjum sínum. Það er á valdi framkvæmdastjórnarinnar. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að við að minnsta kosti fáum það út úr umræðunni hér að gerður sé greinarmunur á þessu og hinu, sem er alltaf kjarnaatriði umræðunnar um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu, að við fáum varanlega undanþágu á sviði sjávarútvegsmála.

Hvað segir í skýrslunni um það atriði sérstaklega, á bls. 63?

„Skoðun á aðildarlögum einstakra ríkja staðfestir að hingað til hefur ekki verið um varanlegar undanþágur að ræða hvorki á sviði sjávarútvegsmála né landbúnaðarmála.“

Og þetta er skýrt alveg sérstaklega út í skýrslunni. Færð eru fyrir því rök og skýringar að það gildi alveg sérstaklega um málaflokka þar sem tekin hefur verið upp sameiginleg stefna, eins og í tilviki sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, að Evrópusambandið muni ávallt reynast sérstaklega erfitt í samningum um varanlegar undanþágur.

Ég heyrði það í einni ræðu fyrr í dag að ekki væri til neitt sambærilegt dæmi og það sem við ætluðum að láta reyna á. Ég er ekki sammála því. Ég tel að dæmið sem Norðmenn hafa sé að mjög miklu leyti sambærilegt við það sem meiri hluti utanríkismálanefndar vildi láta reyna á í viðræðum við Evrópusambandið og þess vegna sé sjálfsagt að horfa til þess. Hvað var það sem Norðmenn vildu láta reyna á? Jú, þeir vildu fá eignarréttarlega stöðu á stofnunum sínum viðvíkjandi, það að um væri að ræða þeirra eign sem þeir mættu ákveða sjálfir að veiða úr og stjórn á veiðunum ætti líka að vera á þeirra hendi. Þeir tóku það upp í viðræðunum að banna ætti kvótahopp, þ.e. útlendingar ættu ekki að geta keypt sig inn í sjávarútveg Norðmanna og komast þannig í heimildir, með því að kaupa norskar útgerðir. Þeir létu reyna á ýmis svona atriði. Því var öllu hafnað, í engu atriði samþykkt. Þetta eru ekki dæmi sem við getum bara kosið að horfa fram hjá og segja: Þetta á ekki við á Íslandi. Þetta, ásamt því sem nákvæmlega er rakið í skýrslunni, um að aldrei hafi neitt umsóknarríki fengið varanlega undanþágu frá sambandslöggjöfinni, er algert kjarnaatriði í allri umræðu um stöðu aðildarviðræðna og mögulegt framhald þeirra.

Það verður að gera greinarmun á þessu, eins og ég hef áður tekið fram, og hinu hvernig einstakar undanþágur hafa mögulega komist inn í samninga einstakra ríkja. Það hefur ýmist gerst þegar menn hafa verið að færa út starfsemi eða samstarf Evrópuríkjanna með nýjum sáttmálum eða þau dæmi sem nefnd eru byggja einfaldlega á afleiddri löggjöf sem getur tekið breytingum og það er alveg örugglega ekki það sem meiri hluti utanríkismálanefndar átti við þegar talað var um að við þyrftum að fá varanlegar undanþágur. Þvert á móti. Það er einmitt ekki það sem átt var við. Það var einmitt ekki verið að tala um að það mundi nægja okkur að fá reglum, sem hægt væri að breyta með meirihlutaákvörðun síðar, breytt í okkar þágu.

Að öðru leyti vil ég segja um stöðu málsins í dag að ég hef verið hlynntur því að við hlustuðum eftir vilja þjóðarinnar í þessu máli. Ég tel að hann birtist okkur með ýmsum hætti, ekki eingöngu í nýjustu skoðanakönnunum sem menn grípa gjarnan til máli sínu til rökstuðnings. Að sjálfsögðu birtist vilji þjóðarinnar líka í niðurstöðum kosninga og flokkarnir hafa þó gert það fyrir kjósendur að tefla fram nokkuð skýrum valkostum með því að hafa skýra Evrópusambandsstefnu í flokkssamþykktum sínum. Þetta held ég að eigi hreinlega við um alla flokka. Það er tekist á um þá stefnu á landsfundum og flokksþingum en síðan er hún lögð til grundvallar í kosningum og við vitum hver niðurstaðan varð. Ég ætla ekki að þreyta menn á því að rifja upp úrslit síðustu kosninga en það er alveg skýrt að þeir flokkar sem eru andvígir aðild eru með yfirburðastuðning hér á þinginu. Þá er ég ekki bara að vísa í stjórnarflokkana tvo. Þetta skiptir máli.

Vilji menn horfa til þess hvað birtist okkur í skoðanakönnunum þá er alveg ljóst að mjög takmarkaður stuðningur er við inngöngu í Evrópusambandið en menn vísa til þess að áhugi sé á því að ljúka viðræðum. Um það atriði vil ég segja þetta: Ég hef lengi brotið heilann um það hvort ekki væri hægt að koma til móts við kjósendur í landinu hvað það atriði snertir. Ég hef mikinn skilning á því að skoðanakannanir sýni að þegar fólk er spurt hvort það vilji frekar fá að taka ákvörðun eða láta þingið taka ákvörðun þar sem það veit ekki hver niðurstaðan verður svari það því á þann veg að það vilji fá að greiða atkvæði. Ég skil það vel. En sú skoðanakönnun tekur ekkert tillit til þeirrar pólitísku stöðu sem verður að hafa með í umræðu um þetta mál. Hún er sú að á bak við aðildarumsóknina verður að vera stuðningur og pólitískur vilji. Án þess tel ég í raun ómögulegt að ná samningi við Evrópusambandið. Þá ályktun dreg ég ekki bara af lestri fræðigreina og skýrslu sem þessarar, þar vísa ég líka í bein samskipti við þingmenn annarra þjóðþinga innan Evrópusambandsins. Og svo skulum við bara beita heilbrigðri skynsemi í þessu og kannski draga lærdóma af síðasta kjörtímabili líka. Þá hljótum við að geta verið sammála um að hér er ákveðinn ómöguleiki til staðar sem ekki verður hægt að komast í kringum.