143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:56]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fór á fundinn sem við erum að ræða um með væntingar um að fá að heyra sjónarmið frá ólíkum aðilum og það er rétt hjá hv. þingmanni að þau voru dregin fram á þessum fundi. Það voru hins vegar vonbrigði að menn skyldu nálgast hlutina með einum fulltrúa, sem var fulltrúi bænda, nei-sinnanna, frá Noregi, og erindið snerist um það, það var ekki kynnt þannig en þannig var það lagt fram á fundinum, með hvaða hætti bændur gætu varist.

Ég var að vona að ég fengi frá Noregi málefnalega umræðu um kosti og galla, afleiðingar og það gat allt saman verið neikvætt. Það sem ég er að kalla eftir, og kannski tek þetta dæmi hér í ræðu minni, er fyrst og fremst það að þegar menn fara af stað með þessa umræðu þá þurfa menn að draga fram mismunandi sjónarmið, sérstaklega samtök sem eru stór og öflug.

Ég ætla að taka það fram hér, af því að ég hef sagt það líka annars staðar og get staðið við það hvar sem er, að ég tel að Bændasamtökin hafi á margan hátt tekið þátt í umræðunni varðandi aðildarumsóknina með mjög faglegum hætti. Þau hafa dregið fram ýmis rök o.s.frv., það hefur að vísu verið einsleitur hópur. En það breytir ekki því að ég hef haft töluvert gagn af því að lesa Bændablaðið, sitja fundi hjá Bændasamtökunum og taka þátt í umræðum. En ég er að vekja athygli á því að menn fóru ansi fljótt í að ákveða niðurstöðu og það fannst mér neikvætt. Mér fannst það vera vont vegna þess að ég þurfti á því að halda, og ég geri ráð fyrir að þannig sé það með fleiri, að fá báðar hliðar og vangaveltur, að reynt yrði að draga fram kosti og galla. Svo getur maður sagt á móti að hagsmunasamtök hafi ekki það hlutverk, þau eigi að gæta hagsmunanna og hagsmunirnir eru þeir að verja hagsmunina hér innan lands. En þá liggur við að maður spyrji sig: Hverra hagsmuna gæta Bændasamtökin?