143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:35]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér líst bara ekkert á það. Mér líst bara ekkert á þá stefnu og það byggir líka á þeim viðtölum sem ég hef átt við sveitarstjórnarmenn og fólk í kjördæminu. Það eru allir mjög slegnir yfir þessu því að menn bundu svo gríðarlega miklar vonir við verkefnið. Fullt af verkefnum er í upplausn út af þessu úti um allt kjördæmið, Suðurkjördæmi, og þar ríkir mikil óvissa. Það er ekki gott.

Ég hef sagt það áður, ég held að Evrópusambandið sé ekki endilega himnaríki á jörð en það er valkostur. Og ef við náum fullnægjandi samningi samkvæmt samningsmarkmiðum okkar og getum gengið þarna inn held ég að margt muni breytast hjá okkur. Það hafa IPA-styrkirnir m.a. sýnt. Hvað sem menn vilja segja um þá, þá voru þetta gríðarlega öflugir styrkir. Þetta eru ekki einhverjir hundraðkallar, Evrópusambandið setur fleiri tugi milljóna í verkefnin, sem gerir fólki virkilega kleift að byggja upp þannig að eitthvað verði úr því. Því miður höfum við ekki svona stóra sjóði, þrátt fyrir að vera svona ofboðslega velmegandi og ríkt land hefur okkur ekki tekist það einhverra hluta vegna. Það er synd því að á þessu landi býr fullt af frumkvöðlum og hugsandi fólki. Úti í sveitarfélögunum eru alls kyns hugmyndir í gangi en það vantar alltaf fjármagn til þess að hrinda þeim í framkvæmd.

Þó að ég viti það svo sem ekki, maður getur aldrei alhæft um neitt, þá held ég að þetta mundi gjörbreyta stöðu okkar, en ég veit það ekki. Ég held satt best að segja að það mundi koma mörgum gríðarlega á óvart hvað margt mundi breytast á Íslandi ef við færum þarna inn. En við göngum náttúrlega ekki í Evrópusambandið nema að ná fullkomlega markmiðum okkar, það er alveg á hreinu. Ef við náum þeim ekki og þurfum að missa sjávarútvegsauðlindina í hendurnar á einhverjum öðrum þá samþykkjum við það náttúrlega ekki. Þá höldum við bara áfram þessu basli.