143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

lengd þingfundar.

[16:12]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er vandlifað í þessum heimi. Um daginn kvörtuðu þingmenn stjórnarandstöðunnar hástöfum yfir því að fundir hér væru of stuttir, að menn þyrftu að fara heim um miðjan dag. Áðan var kvartað yfir því að ekki mætti ræða þá ágætu skýrslu sem er á dagskrá þingsins í dag. Nú er lagt til að mönnum gefist enn meira tækifæri til að ræða þessa skýrslu og þá er það líka ómögulegt.

Ég kem hingað til að gera grein fyrir atkvæði mínu. Ég styð lengri þingfund í kvöld enda hef ég trú á því að hæstv. forseti ætli ekki að beita sömu aðferðum og var gert hér ítrekað í tíð seinustu ríkisstjórnar, að fara langt inn í nóttina. Ég treysti því að hæstv. forseti ætli til dæmis að bæta upp fyrir þann tíma sem hér hefur farið forgörðum.

Ég verð að segja að ég hlakka mikið til að heyra atkvæðaskýringu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem kom hingað oft og ítrekað á seinasta kjörtímabili og hvatti til þess að hafa þingfundi langa, inn í nóttina og helst á hverri nóttu. (Forseti hringir.) Ég hlakka til að heyra atkvæðaskýringu hv. þingmanns.

Ég segi já.