143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

lengd þingfundar.

[16:24]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að taka undir með þeim sem hér hafa talað og óskað eftir efnislegum rökum fyrir lengd fundar og einnig hversu lengi hann komi til með að standa. Ætlar forseti að hafa fund til miðnættis eða inn í nóttina? Eru mál úr nefndum á morgun sem hæstv. forseti veit af og er brýnt að taka á dagskrá eða hvað er það annað sem veldur því að við þurfum að ræða þetta mál fram á kvöld?

Eins og komið hefur fram er leyfi fyrir þingfundi til miðnættis á morgun og ætti það kannski að duga til að klára umræðu um þessa skýrslu sem við ræðum hér.

Forseti hefur einnig sagt, að mér skilst, að þingsályktunartillagan sem var tekin út af dagskrá í dag verði væntanlega sett aftur inn á morgun og þá spyr ég: Er það samtal og samræða sem hefur átt sér stað meðal þingflokksformanna? Er þá einhver sátt um það hvenær eða hvort hún kemur á dagskrá þingsins?

Ég spyr um efnisleg rök og hversu lengi fundur á að standa, hæstv. forseti.