143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

lengd þingfundar.

[16:27]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta ekki hláleg atkvæðagreiðsla. Mér finnst hún varða það hvort við ætlum einmitt að samþykkja mjög gamaldags vinnubrögð.

Ég skal segja hvernig mér líður í þessu. Nú á að reyna að þagga sem fyrst niður í dúddum eins og mér sem eru áhugasamir um að ræða ESB, kosti og galla aðildar og vilja sjá aðildarsamning. Það á að reyna að keyra í gegn sem fyrst tillögu sem slítur þessum samningaviðræðum þannig að það sé nánast ómögulegt að sækja aftur um á komandi árum, jafnvel áratugum. Mér finnst mikið liggja við.

Mér finnst að við eigum að gefa okkur góðan tíma, og ég er reiðubúinn að verja það, í að ræða efnislega þessa skýrslu. Við eigum að gera það að degi til, við eigum ekki að reyna að ljúka því af einhvern veginn í kvöld. Það eru gamaldags vinnubrögð, það er birtingarmynd þessa ofríkis, þessarar forræðishyggju sem ríkisstjórnin er að tileinka sér.

Mér líður eins og það sé verið að reyna að troða ofan í mig skítugum, illa lyktandi lopasokk einhvern veginn (Forseti hringir.) þannig að ég segi þvert nei við þessum kvöldfundi.