143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

lengd þingfundar.

[16:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt með því að endurtaka það sem aðrir hafa sagt um tilefnið og svoleiðis. Ég verð þó að segja að mér finnst líka svolítið skrýtið að við séum hér að greiða atkvæði um kvöldfund þegar við ættum að vera að greiða atkvæði um þingsályktunartillögu um það að gefa þjóðinni valdið.

Það eru ekki þingmenn á hinu háa Alþingi sem þurfa meiri tíma í kvöld til að ræða þessa skýrslu heldur þarf þjóðin meiri tíma til að ræða þessa skýrslu og taka ákvörðun um hana. Ef um væri að ræða þingsályktunartillögu um að skjóta málinu til þjóðarinnar mundi ég segja já, þá mundi ég vinna í alla nótt og allar næstu nætur, en ég sé enga ástæðu til þess fyrir okkur að ræða þessa skýrslu. Við eigum að varpa þessu máli til þjóðarinnar, um það á málið að snúast. Þetta er þingskapaleikfimi.

Ég segi nei. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)