143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

lengd þingfundar.

[16:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég er alveg til í að vinna í kvöld, ég mun segja já við þessu. Við skulum vinna í kvöld og ræða þessa skýrslu. Að sjálfsögðu er það þingskapaleikfimi, stjórnarflokkarnir eru búnir að leggja fram þingsályktunartillögu um að það skuli slíta viðræðum þannig að það að ræða þessa skýrslu er marklaust fyrir það — nema kannski að við tökum líka þingsályktunartillögu sem Píratar lögðu fram með Samfylkingunni og Bjartri framtíð um að við förum í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningum um það hvort við skulum halda áfram með aðild, þetta aðildarferli, aðlögunarferli að sjálfsögðu.

Við getum gert það samhliða sveitarstjórnarkosningum. Það þýðir að við þurfum að klára þessa þingsályktunartillögu í vikunni. Það er nægur tími til þess. Nú ræðum við þetta í kvöld og þá spyr ég þingforseta í þriðja sinn hvort við getum ekki sett þingsályktunartillögu Pírata, Bjartrar og Samfó um að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarferlið samhliða sveitarstjórnarkosningum strax á dagskrá á morgun, bara fyrsta mál á dagskrá eftir störf þingsins. Þá getum við farið að ræða það, sett það í nefnd (Forseti hringir.) og klárað það dæmi þannig að þjóðin fái að segja sitt samhliða sveitarstjórnarkosningunum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ég segi já.