143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

lengd þingfundar.

[16:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég átti orðastað við hæstv. forseta fyrir nokkrum dögum þar sem við ræddum það sérstaklega að nú þyrfti að fara að horfa á skipulag þingsins út frá þeim málafjölda sem ætti eftir að koma og það væri mjög mikilvægt að við gætum treyst á dagskrá þingsins. Hæstv. forseti tók því vel og sagði að það væri alveg ljóst að ef málin kæmu ekki fram þá sneyddist bara um tímann fyrir þau mál sem ættu eftir að koma fram.

Hins vegar hafa engin ný mál komið fram nema þessi eina tillaga og mér er algjörlega fyrirmunað að skilja það að setja eigi á einhverja hraðferð í umræðum um skýrslu sem klárast hvort eð er á morgun miðað við þingsköp. Að setja eigi hér á kvöldfund til þess að geta sett hraðferð á mál sem er mjög stórt og mjög mikilvægt að við gefum okkur tíma til að ræða. Þess vegna segi ég nei við þessu. Við þingmenn Vinstri grænna höfum nú yfirleitt ekki staðið í vegi fyrir kvöldfundum á því þingi sem nú stendur yfir. Þetta finnst mér hins vegar óvönduð málsmeðferð, sérstaklega í ljósi þeirra umræðna sem ég hef átt hér. Ég batt satt að segja vonir við að hæstv. forseti legði slíkar tillögur þá fram í samkomulagi við fulltrúa þingflokka.